Kæra samstarfsfólk!
Yfirskrift ársfundar okkar, sem fram fer í Silfurbergi Hörpu þann 16. maí, er Landspítali í vörn og sókn. Dagskráin er hefðbundin en metnaðarfull enda af nógu að taka á viðburðaríku ári. Yfirskriftin er viðeigandi, það skiptast á hjá okkur skin og skúrir, við spilum samhliða vörn og sókn í raun sama hvar niður ber á spítalanum. Mörgum sem láta sig Landspítala varða finnst erfitt að heyra það sem virðast eilífar hörmungarsögur af starfseminni, þegar raunin er að hjá okkur er mikil breidd í starfseminni. Þannig gengur allt ljómandi vel einn daginn á einni deild, á meðan við berjumst í bökkum á þeirri næstu. Þetta þekkjum við líka í meðferð sjúklinganna okkar - einn daginn gengur vel en fljótt getur hallað undan fæti - og öfugt! Þetta er eðli umfangsmikillar spítalastarfsemi, hún er dýnamísk og flókin, hefðbundin og einföld - allt á sama tíma. Ég hvet ykkur eindregið til að koma til fundarins, allir eru velkomnir, skráning er hér.
Það er ekki einfalt að starfa á sjúkrahúsi og það er ekki heldur einfalt að vera sjúklingur á sjúkrahúsi. Við berum öll ábyrgð á heilsu okkar, hvar sem er og nú hefur Landspítali gefið út leiðbeiningar fyrir sjúklinga: Örugg dvöl á sjúkrahúsi. Hér eru á ferðinni átta ráð/leiðbeiningar fyrir sjúklinga sem leggjast inn hjá okkur sem auðvelda þeim að hafa áhrif á og taka þátt í eigin meðferð. Markmiðið er að fyrirbyggja byltur, ranga lyfjagjöf, tryggja farsæla útskrift og hvetja fólk til að viðra áhyggjur sínar um meðferð, svo eitthvað sé nefnt. Verkefnið er að erlendri fyrirmynd, hlaut gæðastyrk velferðarráðuneytisins nú í apríl og við gerum ráð fyrir því að þetta nýtist á öllum sjúkrahúsum landsins.
Í vikunni fundaði ég með ljósmæðrum á Landspítala. Fyrir liggur að Landspítali er ekki aðili með beinum hætti að kjarasamningum ljósmæðra fremur en annarra stétta en spítalinn tekur undir með heilbrigðisráðherra sem styður ljósmæður í þeirra kjarabaráttu. Það er ýmislegt sem spítalinn getur gert og lýtur að vinnuumhverfi og aðstæðum ljósmæðra og áttum við góðar samræður um það á fundinum. Því miður er það þó svo að óhætt er að segja að bæði sé uggur og urgur í hópi þessa mikilvægu starfsstéttar. Annars vegar hefur á þriðja tug þeirra sagt upp störfum og ef þær uppsagnir koma til framkvæmda mun meginþorri þeirra gera það á háannatíma hér á spítalanum. Hins vegar er ljóst að ekki er gróið um heilt frá síðustu kjaradeilu ljósmæðra og ríkisins. Ég vil enn og aftur hvetja samningsaðila til að ná sáttum hið allra fyrsta. Hver dagur í þessari óvissu er öllum þungbær og því eru fréttir af því að til land sjáist í deilunni afskaplega ánægjulegar.
Á morgun, 12 maí, er alþjóðlegur dagur hjúkrunar á fæðingardegi Florence Nightingale. Þessa vikuna hefur að vanda dagsins verið minnst með viku hjúkrunar á Landspítala með ýmsum hætti, s.s. málþingi um mannréttindi og hjúkrunarbúðum þar sem kynntar voru nýjungar og áherslur í hjúkrun. Ég óska hjúkrunarfræðingum innilega til hamingju með daginn og metnaðarfulla viku hjúkrunar
Góða helgi!
Páll Matthíasson