Kæra samstarfsfólk!
Í vikunni fór fram fjölsóttur ársfundur Landspítala. Á fundinum var farið yfir árið 2017, sem sannarlega var ár áskorana en líka tækifæra og árangurs enda var yfirskrift fundarins „Landspítali í vörn og sókn.“ Þannig er lífið hjá okkur á Landspítala, okkur gengur allt að sólu í meðferð sjúklings einn daginn en daginn eftir virðist allt ætla að fara úrskeiðis. Eins er þetta á deildunum hjá okkur, allt gengur vel á einni meðan á annarri virðist allt í hershöndum. Allt gerist þetta sama daginn og fyrir þá sem ekki hafa yfirsýn yfir alla starfsemina kann að virðast einkennilegt að við getum staðið keik þegar álagið virðist yfirgengilegt og barið okkur á brjóst yfir árangri okkar. En svona er þetta á stórri og öflugri stofnun, ekkert hvítt eða svart heldur frekar köflótt.
Á sama tíma og við viðurkennum vandann í rekstrinum er afskaplega mikilvægt að lyfta fram þeim árangri sem við náum á hverjum degi með gríðarlegri elju frábærs starfsfólks. Þetta ræddi ég í ársfundaræðu minni. Að vanda var sérstaklega gaman að veita einstaka starfsmönnum sem tilnefndir voru af samstarfsfólki verðskuldaða viðurkenningu. Teymum sem staðið hafa fyrir frábærum verkefnum og framþróun var síðan veitt sérstök viðurkenning. (Heiðranir á ársfundinum) Loks leyfðum við okkur að horfa björtum augum til framtíðar enda uppbygging við Hringbraut komin á fleygiferð.
Síðustu daga hefur álag hjá okkur verið sérstaklega mikið eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Því miður hefur flæði sjúklinga verið erfitt sem þýðir að sjúklingar hafa þurft að bíða löngum stundum á bráðamóttökum þar til að pláss fæst fyrir þá á viðeigandi deildum. Þetta er afar óheppilegt enda mikilvægt að sjúklingar komist sem allra fyrst á deildir sem sérhæfðar eru til að sinna þeim. Enn komum við að hinum vel þekkta vanda sem felst í því að á meðan við getum ekki útskrifað þá sem útskriftarhæfir af sjúkrahúsinu eru getum við ekki innskrifað þá sem í mestri þörf eru fyrir okkar sérhæfðu þjónustu. Þetta er afleit staða, sérstaklega í því ljósi að við höfum þurft að draga saman fjölda legurýma á spítalanum vegna skorts á starfsfólki í hjúkrun, sérstaklega hjúkrunarfræðingum. Sá skortur er verulega alvarlegur og lýsir sér t.d. í því að um hverja stöðu hjúkrunarfræðings í vaktavinnu sækja færri en einn. Yfirvofandi er alvarlegur skortur á fólki í fleiri heilbrigðisstéttum, sérstaklega á sjúkraliðum en einnig lífeindafræðingum, líffræðingum og geislafræðingum og það væri aldeilis gustuk ef unnt væri að koma í veg fyrir að sá vandi raungerðist. Það skortir ekki á varnaðarorðin varðandi hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Skortur á hjúkrunarfræðingum er þó ekki bara vandi Landspítala, hann er vandi á landsvísu og raunar langt út fyrir landsteinana. Á Íslandi er talið að hundruð hjúkrunarfræðinga vanti til starfa nú þegar, á Englandi er talið að yfir 100.000 hjúkrunarfræðinga skorti og í Bandaríkjunum mun sambærileg tala vera 500.000. Vandinn er því víðtækur og orsakirnar lýðfræðilegar, tengjast þeim áskorunum sem hækkandi aldur og sífellt öflugri meðferðarmöguleikar skapa. Verkefnið er því að horfa til þeirra sem eru að glíma við þennan vanda, skoða lausnir þeirra og vítin sem ber að varast. Þetta er meiri háttar áskorun og verðugt verkefni fyrir framsýn stjórnvöld og stjórnendur mennta- og heilbrigðisstofnana.
Að lokum langar mig að vekja athygli á reglulegri þjónustukönnun Landspítala meðal sjúklinga. Í úrtaki eru sjúklingar sem útskrifuðust fyrstu þrjá mánuði þessa árs og hafa þeir fengið bréf með boði um þátttöku. Það er okkur afskaplega mikilvægt að fá góða svörun í þessari könnun enda er tilgangur hennar að afla upplýsinga um við horf sjúklinga til þjónustu spítalans. Niðurstöðurnar notum við til að bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra. Bestu þakkir til þeirra sem aðstoða okkur í þessu.
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Efni af ársfundi Landspítala 2018, meðal annars myndskeið