Kæra samstarfsfólk!
Í upphafi sumars er gaman að hitta á göngunum nýtt starfsfólk, nú og heilsa aftur þeim sem koma til sumarafleysinga til okkar ár eftir ár. Þessi viðbót er okkur afskaplega mikilvæg enda skiptir miklu að starfsfólk sem hér stendur vaktina allan veturinn nái að hvíla sig yfir sumarið. Ég veit að við leggjumst öll á eitt að taka vel á móti þessu góða fólki - vonandi finnur sumt þeirra sér framtíðarstarfsvettvang hjá okkur. Velkomin öll!
Almennt gengur vel að ráða starfsfólk í afleysingar hjá okkur. Því miður hefur það þó ekki tekist í nokkrum greinum, sér í lagi hjúkrun. Þetta leiðir til þess að enda þótt fleiri rúm verði að líkindum opin hjá okkur í sumar en þegar mest hefur verið áður, þá má gera ráð fyrir að lokanir standi lengur þetta sumarið. Við erum enn að hnýta síðustu hnútana í sumaráætluninni og erum óvenju seint á ferðinni með það að þessu sinni. Það er vegna þess að við viljum allt til vinna að tryggja sem besta mönnun í sumar. Við gerum ráð fyrir að tilkynna í byrjun næstu viku um sumarstarfsemina.
Ársfundurinn í síðustu viku var vel heppnaður og vel sóttur eins og ég fjallaði um í síðasta pistli Á fundinum frumsýndum við myndskeið um uppbygginguna við Hringbraut og þá mikilvægu starfsemi sem þar mun fara fram. Um það snýst þessi uppbygging - örugga og góða þjónustu við veikt fólk sem þarf flókna og sérhæfða þjónustu okkar færasta fólks. Í öðru myndskeiðinu hér eru meðal annars forvitnilegar þrívíddarmyndir, í hinu er rætt við fagfólk á Landspítala sem í áraraðir hefur unnið að undirbúningi starfseminnar en fjöldi starfsmanna hefur tekið þátt í þessu mikla verkefni af hálfu spítalans. Ég hvet ykkur eindregið til að skoða myndskeiðin og kynna ykkur málið út frá þeim hagsmunum sem mestir eru í málinu - hagsmunum sjúklinga.
Góða helgi!
Páll Matthíasson