Kæra samstarfsfólk!
Í vikunni náðu samninganefnd ljósmæðra og samninganefnd ríkisins samkomulagi eftir 9 mánaða samningalotu. Þungu fargi er af okkur létt og nú bindum við vonir við að félagar í Ljósmæðrafélagi Íslands samþykki samninginn. Kjaradeilur og heilbrigðisþjónusta er afleitur kokteill enda hafa þær afar slæm áhrif inn í viðkvæma starfsemi. Framundan er annasamur tími á hjá okkur enda draga nágrannasjúkrahúsin verulega úr þjónustu við fæðandi konur yfir sumartímann og því ánægjulegt að þessi steinn er að líkindum úr veginum!
Um helgina munum við auglýsa eftir skrifstofuhúsnæði fyrir þá starfsemi sem nú fer fram á Eiríksgötu 5. Markmiðið með þessu er að losa dýrmætt húsnæði sem er á góðum stað fyrir klíníska starfsemi. Við viljum búa betur að göngudeildarstarfsemi og skapa svigrúm fyrir ýmis klínísk verkefni sem er vaxandi þörf fyrir, m.a. brjóstamiðstöð, erfðaráðgjöf og sameiginlega innskriftamiðstöð svo eitthvað sé nefnd. Mikil þörf er fyrir aukna starfsemi af þessum toga á Landspítala og rýmar vel við áherslur heilbrigðisyfirvalda að tryggja að svo megi verða. Starfsemin á Eiríksgötu 5 er þess eðlis að finna má henni annan stað en nálægðin við kjarnastarfsemi okkar á Hringbraut veitir mikil tækifæri til að efla starfsemina. Eins og við öll þekkjum eru þrengsli klínískrar starfsemi gríðarleg en með þessu vonumst við til að geta aukið rýmið verulega auk þess að nýta betur það húsnæði sem losnar við þessa tilfærslu. Það verður mjög spennandi að vinna að þessari uppbyggingu en við gerum ráð fyrir að geta hafið hana um næstu áramót.
Í vikunni kynntum við sumarstarfsemi á Landspítala. Að vanda verður samdráttur í reglulegri starfsemi á spítalanum og sér þess stað í áætluninni. Fyrir liggur að færri rúmum verður lokað í sumar miðað við síðasta sumar en þó gerum við ráð fyrir að áhrifin verði meiri að þessu sinni. Ástæðan er sú að lokanir standa yfir í lengri tíma og opin rúm í sumarbyrjun eru þegar færri en í fyrra. Þá hefur sú ákvörðun verið tekin að loka hjartagáttinni (10D) þann 7. júlí og flyst bráðastarfsemin á bráðamóttöku í Fossvogi. Þjónusta hjartasérgreina í Fossvogi verður aukin samhliða þessu og fleiri rúm opnuð á hjartadeildinni (14EG) við Hringbraut. Öllum er ljóst að með þessu færist mikill þungi á starfsemi bráðamóttökunnar í Fossvogi þar sem þegar eru fyrir ærin verkefni og rúmlega það. Ég vil fullvissa ykkur um að allra leiða var leitað til að forða þessu en niðurstaðan var að grípa til þessa óyndisúrræðis. Það verður verkefni okkar allra í sumar, sama hvar við störfum á spítalanum að sjá til þess að starfsemin gangi og styðja við samstarfsfólk okkar í framlínunni með öllum tiltækum ráðum.
Ástæða lokunar hjartagáttar sem og meginástæða fækkunar opinna rúma í sumar er skortur á hjúkrunarfræðingum. Því miður hefur okkur ekki tekist að ráða nægilega marga til sumarafleysinga, né eru stöður hjúkrunarfræðinga fullmannaðar. Þetta er grafalvarleg staða. Sannarlega vantar í fleiri heilbrigðisstéttir til starfa á spítalanum, einkum sjúkraliða, lífeindafræðinga og geislafræðinga en sá skortur hefur ekki (enn) orðið til þess að draga hafi orðið úr starfsemi með þessum hætti. Ekki er annað hægt en að senda ákall um að samfélagið axli ábyrgð á þessari ískyggilegu stöðu og hefji sókn sem dugar til að laða fleiri hjúkrunarfræðinga (aftur) til starfa og fjölga þeim sem námið sækja. Skortur á hæfu og vel menntuðu heilbrigðisstarfsfólk er, eins og ég hef margítrekað, stærsta ógn heilbrigðiskerfisins.
Góða helgi!
Páll Matthíasson