Kæra samstarfsfólk!
í dag eru 92 ár frá því að hornsteinn var lagður að Landspítala við Hringbraut. Það voru dönsku konungshjónin sem það gerðu en bygging spítalans hafði verið baráttumál kvenna áratuginn þar á undan. Mikið var rætt um bygginguna sem að sjálfsögðu þótti alltof stór og óþarflega fyrirferðarmikil. Rétt rúmum fjórum árum síðar, í desember 1930, lagðist fyrsti sjúklingurinn inn á spítalann og fljótlega varð ljóst að bygga þyrfti við hann.
Þetta er í raun saga heilbrigðsþjónustunnar, stórstígar framfarir kalla á sífellt meiri og sérhæfðari þjónustu, á sama tíma og öldruðum og lang- og fjölveikum fjölgar. Þörfin fyrir aukinn mannafla í heilbrigðisstéttum er gríðarlegur og í sumar finnum við rækilega fyrir skorti á hjúkrunarfræðingum og þurfum að draga úr starfsemi vegna hans. Hjúkrunarfræðingar eru eftirsótt starfsstétt um allan heim og það er verulegt áhyggjuefni, raunar ein stærsta ógn við heilbrigðiskerfið hversu fáir velja sér þennan spennandi starfsvettvang. Þetta er þó ekki nýtt vandamál því þegar fyrsta hjúkrunarkonan steig á land á Íslandi upp úr aldamótunum 1900 var haft á orði að þær hefðu nú þurft að vera tvær.
Á Landspítala veitum við fjölbreytta þjónustu, aðallega lækningar og hjúkrun, en margar aðrar starfsstéttir koma við sögu á hverjum degi og eru gangverki spítalans nauðsynlegar. Þjónusta við sjúklinga er teymisvinna þar sem margir leggja sérfræðiþekkingu sína til. Flókin þjónusta sem varðar líf og dauða krefst sérhæfingar margra stétta og það er lán okkar að á Landspítala starfar fámennur en afar öflugur hópur sérmenntaðra presta og djákna sem sinna sjúklingum og aðstandendum þeirra á viðkvæmustu stundum lífsins. Þjónusta þeirra snýr að sorgar- og áfallavinnu og hún stendur til boða allan sólarhringinn, allan ársins hring. Gríðarleg eftirspurn er eftir þessari þjónustu enda er hún trúarskoðunum algerlega óháð og nýta sér hana sjúklingar, aðstandendur og starfsmenn. Að auki við þjónustu presta og djákna Landspítala njóta sjúklingar þjónustu ýmissa presta og forstöðumanna safnaða og trúfélaga utan úr bæ og hafa prestar og djákni Landspítala mjög oft milligöngu um þá þjónustu og sinna einnig viðkomandi sjúklingum eftir því sem kallað er eftir. Landspítali er afar þakklátur fyrir fyrir það góða samstarf sem hann á við trúfélög í landinu.
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Árið 1863 lagði Jón Hjaltalín landlæknir fram frumvarp á Alþingi um sjúkrahús sem þjóna myndi öllu landinu. Frumvarpið hlaut ekki framgang í það skiptið. Nokkrum áratugum seinna hófu konur baráttu fyrir byggingu Landspítala og vildu með því minnast kosningaréttar kvenna árið 1915. Það bar þann ávöxt að 15. júní 1926 lagði Alexandría drottning Dana hornstein að spítalanum. Bygging spítalans, sem teiknaður var af Guðjóni Samúelssyni, tók 4 ár. Byggingin er nú friðuð á ytra byrði.