Kæra samstarfsfólk!
Sumarstarfsemi og kjaradeila
Þrátt fyrir að veðrið leiki ekki beinlínis við okkur hér á suðvesturhorninu um þessar mundir þá er nú sumarið samt hér og ég vona að þið náið að hvíla ykkur sem best. Á sama tíma geri ég mér grein fyrir því að sum ykkar hafið vegna manneklu og álags jafnvel þurft að hliðra til fríum ykkar til að tryggja öryggi og þjónustu. Þetta sýnir mikla fórnfýsi og ábyrgðarkennd og ég fullyrði að landsmenn allir standa í þakkarskuld við ykkur fyrir. Það var óvenju erfitt að skipuleggja sumarstarfsemina í ár og það verður að kappkosta að við lendum ekki í svipaðri stöðu að ári. Jafnframt eru blikur á lofti vegna uppsagna á annars tugs ljósmæðra nú á sunnudaginn, 1. júlí. Eins og ég hef áður rætt bitna þær uppsagnir í fyrstu aðallega á meðgöngu- og sængurlegudeild spítalans. Við þessar erfiðu aðstæður ber Landspítala skylda til að gera allar mögulegar ráðstafanir. Spítalinn hefur sett upp aðgerðaráætlun og undirbúið aukna samvinnu á milli deilda spítalans og jafnframt fengið vilyrði frá öðrum heilbrigðisstofnunum um að veita aukna þjónustu í samráði við starfsfólk fæðingarþjónustu Landspítala. Staðan er engu að síður afar þröng og raunar gildir hið sama um þær stofnanir sem við eigum í samstarfi við. Afleiðingar uppsagnanna verða óhjákvæmilega skert þjónusta og aukið álag á það starfsfólk sem eftir er. Enn á ný biðlum við til deiluaðila að leysa þessa deilu tafarlaust, örugg þjónusta við mæður og börn verður að vera tryggð.
Yfirlýsing frá Landspítala 28. júní vegna uppsagna ljósmæðra
Plastbarkamálið
Rektor Karolinska Institutet úrskurðaði nú í vikunni um vísindaþátt plastbarkamálsins svokallaða. Háskóli Íslands hefur áður tekið þann þátt fyrir og sendi frá sér yfirlýsingu 5. apríl síðastliðinn. Sú yfirlýsing hafði til hliðsjónar skýrslu óháðrar rannsóknarnefndar Háskólans og Landspítala um málið en Pàll Hreinsson dómari við EFTA dómstólinn veitti þeirri nefnd forstöðu. Í yfirlýsingu HÍ var fallist á þá niðurstöðu óháðu rannsóknarnefndarinnar að vinnubrögð sem tengjast birtingu nefndrar vísindagreinar hafi verið aðfinnsluverð þótt á móti kæmu ýmsir þættir til málsbóta. Ekki var talið að lagaskilyrði væru fyrir hendi til að beita formlegum viðurlögum vegna brota í starfi. Úrskurður rektors Karolinska Institutet nú, hvað Ísland varðar, snýr einkum að þætti prófessors við HÍ sem einnig gegnir stöðu á Landspítala. Landspítali mun ráðfæra sig við Háskóla Íslands að nýju um málið þegar skólinn hefur metið þessa nýju skýrslu Karolinska Institutet.
Skýrsla óháðrar nefndar um plastbarkamálið
Yfirlýsing rektors HÍ um lyktir könnunar á þætti prófessors í plastbarkamálinu (5. apríl)
Blaðaskrif
Ítarleg kostnaðargreining hefur legið fyrir varðandi öll læknisverk og aðra þjónustu Landspítala í meira en áratug. Aðgangur að þessum gögnum er greiður, eins og að starfsemisupplýsingum spítalans og hafa upplýsingarnar t.d. verið talsvert notaðar til rannsókna af starfsmönnum spítalans og fleirum. Það kemur því á óvart að sjá í blöðum í vikunni fullyrðingar starfsmanna LSH um að erfitt sé að nálgast gögn og tölur um kostnað við þjónustu opinberra stofnana. Sérstaklega þegar í sömu grein er fullyrt að fyrir liggi nákvæm greining á öllum læknisverkum á stofum sérfræðilækna. Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar vantar verulega upp á að svo sé og er þar skorað á Sjúkratryggingar Íslands að tryggja að fram fari kostnaðargreining á þessari þjónustu. Ástæðulaust er að birta svona misfærslur þegar auðvelt er að afla sér traustra upplýsinga um hina raunverulegu stöðu. Í sömu blaðagrein kemur fram að mun „hagkvæmara“ sé að veita ósjúkratryggðum (svo sem erlendum ferðamönnum) þjónustu á stofum sérfræðilækna en á göngudeildum Landspítala. Auðvitað er það góðra gjalda vert að bjóða ferðamönnum góða þjónustu á góðu verði ef menn telja það mikilvægt og hafa til þess tíma. Sérfræðilæknar á stofu geta ákveðið sjálfir að lækka verð til ósjúkratryggðra því hvorki í samningi þeirra við SÍ né í reglugerð um heilbrigðisþjónustu við ósjúkratryggða er minnst á greiðslur vegna þjónustu á stofum vegna þessa hóps. Eina krafan væri að greiðslan stæði undir kostnaði við þjónustuna þannig að ekki þyrfti að nota fé frá hinu opinbera til að veita hana. Þetta er ólíkt Landspítala sem býr við skýrar skorður á því hvaða gjald má rukka fyrir þjónustu við ósjúkratryggða. Mikilvægt er að umræða um heilbrigðismál byggi á réttum upplýsingum, þannig skilar hún árangri. Hagdeild spítalans er til þjónustu reiðubúin varðandi þær tölur er varða starfsemi hans.
Ný ráðgjafarnefnd
Heilbrigðisráðherra hefur skipað í ráðgjafarnefnd Landspítala til næstu fjögurra ára. Formaður nefndarinnar er Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Nefnd þessi byggir á lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2007 (40/2007) og á að vera vera forstjóra og framkvæmdastjórn Landspítala til ráðgjafar og álits um þjónustu, starfsemi og rekstur spítalans. Til umfjöllunar nefndarinnar verða einnig árlegar starfs- og fjárhagsáætlanir og langtímastefna. Ráðgjafarnefnd hefur ekki verið að störfum frá því skipunartími nefndar undir forystu Ingibjargar Pálmadóttur rann út fyrir meira en sex árum. Ég fagna því að búið sé að skipa í nefndina að nýju. Mikilvægt er að sem breiðastur hópur fulltrúa almennings hafi aðkomu að stefnumörkun og starfsemi jafn mikilvægrar stofnunar og Landspítali er. Í takti við það er nefndin skipuð fulltrúum notenda þjónustu spítalans, fulltrúum stórra stéttarfélaga, fulltrúum helstu samstarfsaðila auk reynslumikilla einstaklinga með bakgrunn í stjórn heilbrigðismála, rannsóknum og kennslu. Það verður fengur að reynslu þessara öflugu einstaklinga og ástæða til að vænta mikils af stuðningi þeirra og ráðgjöf.
Skipað í ráðgjafarnefnd Landspítala
Framtíðarsýn
Njótið sumarsins og lítið á ánægjulega framtíðarsýn fyrir spítalann okkar ef þið hafið tíma.
Góða helgi!
Páll Matthíasson