Kæra samstarfsfólk!
Næstu daga og vikur munu breytingar sem gerðar hafa verið á starfseminni hjá okkur yfir sumartímann koma fram af fullum þunga. Þegar hefur verið dregið úr reglubundinni starfsemi eins og venja er yfir sumartímann en ég hef áður gert grein fyrir þeim og öðrum ráðstöfunum á þessum vettvangi. Í dag tekur svo gildi sumarlokun Hjartagáttar við Hringbraut og flyst bráðastarfsemin á bráðamóttöku okkar í Fossvogi. Öll erum við sammála um að þetta er ekki aðgerð sem við hefðum viljað grípa til en okkur er nauðugur sá kostur. Því ríður nú á að allir, hvar í húsi sem þeir starfa, leggist á eitt til að starfsemin gangi sem best fyrir sig. Það verður veruleg áskorun en ef einhverjir geta mætt henni, þá eru það starfsmenn Landspítala.
Ljósmæðradeilan hefur staðið of lengi. Fæðingarþjónustu á Landspítala stafar veruleg ógn af því ástandi sem kjaradeilan hefur stefnt henni í. Ekki verður ofsagt um framlag ljósmæðra til þess öryggis sem nýburar og mæður þeirra hafa búið við fram til þessa og það hlýtur að vera markmið allra, burtséð frá öðrum mögulegum markmiðum, að tryggja það áfram. Árangur Íslands á þessu sviði er einn sá allra besti og hann skal og verður að halda. Án ljósmæðra sem ganga glaðar og sáttar til vinnu á Landspítala er það faglegur ómöguleiki.
Talandi um kjör. Það er ekki minn háttur að blanda minni persónu í þessa pistla. Eðlilega hefur hún hins vegar dregist inn þá viðkvæmu stöðu sem uppi er í deilu ljósmæðra og ríkisins, eftir umfjöllun mbl.is um launakjör mín í kjölfar úrskurðar kjararáðs. Sá úrskurður kom raunar flatt upp á mig og umfjöllunin reyndar enn frekar. Það er fjarri mér að kvarta undan mínum launum enda hef ég ekki gert það né farið fram á breytingar á þeim, frá því að ég gekkst inn á sömu launakjör og forveri minn árið 2013. Frá þeim tíma hefur orðið vísitöluhækkun á launum samkvæmt almennum úrskurði, síðast 2016. Rétt er að fram komi að fastur tími viðbótareininga hefur verið 133 frá upphafi og virðist sem gert sé ráð fyrir að þeim fjölgi um tvær en ekki 35 eins og ætla mætti af fréttum. Þá voru laun mín um síðustu mánaðamót með óbreyttum hætti en taka væntanlega breytingum samkvæmt úrskurðinum um þau næstu, þó ekki með þeim stórfellda hætti sem ætla má af umfjöllun mbl.is. Ég tek heils hugar undir þær gagnrýnisraddir sem fram hafa komið á Kjararáð og græt ekki að fara undan því. Hins vegar væri óskandi að kjör ljósmæðra og annarra heilbrigðisstétta væru jafnáreynslulaust hækkuð og snöfurmannlega að því verki gengið og við höfum séð undanfarið hjá æðstu stjórnendum. Þá sæjum við væntanlega á bak þeirri eitruðu blöndu sem kjaradeilur og heilbrigðisþjónusta er.
Góða helgi!
Páll Matthíasson