Ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga tóku gildi þann 15. júlí 2018. Nýju lögin eiga að stuðla að því að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Með lögunum eru eldri lög færð til samræmis við nýja persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins, sem kom til framkvæmda í aðildarríkjum sambandsins þann 25. maí siðastliðin.
Samkvæmt nýju lögunum er einstaklingum veitt betri vernd og þeim færð aukinn réttur yfir persónuupplýsingum sínum. Nýjar skyldur falla á alla sem vinna með persónuupplýsingar t.d. hvað varðar vinnslu þeirra, aðgengi að þeim, skýrleika þeirra og öryggi. Upplýsingar um það hvernig unnið er með persónuupplýsingar eiga að vera á aðgengilegu og auðskiljanlegu formi þar sem nýja löggjöfin gerir strangari kröfur til framsetningar og innihalds fræðslu en núgildandi löggjöf. Framkvæmdarstjórn Landspítala hefur í dag samþykkt nýja persónuverndarstefnu sem hefur verið birt á útvef spítalans. Á næstunni verða birtar þar ítarlegri upplýsingar um persónuverndarstefnuna.