Kæra samstarfsfólk!
Í vikunni funduðu vestnorrænir (Færeyjar, Grænland, Ísland) heilbrigðisráðherrar í Reykjavík. Ráðherrarnir skiptast á að halda fundina og að þessu sinni lék Landspítali stórt hlutverk í dagskránni. Ráðherrar og fylgdarlið kynntu sér jáeindaskanna og hjartaþræðingar á Landspítala og fulltrúar Landspítala fluttu nokkur erindi um það sem efst er á baugi. Hringbrautarverkefnið var kynnt sérstaklega og ánægjulegt að geta gert það í þann mund sem jarðvegsframkvæmdir hefjast við meðferðarkjarna. Þá voru flutt erindi um nýjustu tækni í myndgreiningu og hjartaþræðingum, auk þess sem gerð var grein fyrir skipulagi neyðarviðbragðsaðila á Norðurslóðum. Við tökum með ánægju þátt í þessu mikilvæga samstarfi vestnorrænu þjóðanna enda Landspítali mikilvægur hornsteinn í heilbrigðisþjónustu á Norður-Atlantshafi. Raunar er það ósk okkar að geta aukið þetta samstarf enn frekar og eru fundir af þessu tagi góður vettvangur til að efla samvinnu.
Nú liggur fyrir samþykki fjármála- og efnahagsráðuneytis um að breyta skrifstofuhúsnæði Landspítala við Eiríksgötu í göngudeildarhús. Þetta eru frábær tíðindi enda þekkjum við öll hversu göngudeildarstarfsemi okkar er þröngur stakkur sniðinn. Skrifstofustarfsemin færist í Stakkahlíð (húsnæði sem 365 miðlar hafa áður haft til afnota) og sameinast ýmis stoðþjónusta sem dreift hefur verið um borgina. Við erum mjög spennt að geta bætt þjónustu við göngudeildarsjúklinga og efla þá mikilvægu starfsemi og byrja að þróa ferla sem færa munu okkur inn í framtíðarhúsnæði. Við gerum ráð fyrir að flytja starfsemina næsta vor.
Það eru sannarlega spennandi uppbyggingartímar á Landspítala. Fjölmörg verkefni eru í fullum gangi, s.s. framkvæmdir við sjúkrahótel sem nú sér fyrir endann á sem og gluggaskipti á Landspítala Hringbraut. Eins og nefnt var hér að framan eru jarðvegsframkvæmdir vegna Hringbrautarverkefnisins að hefjast. Það er auðvitað fyrst og síðast ánægjulegt að þessum áfanga er náð en það liggur fyrir að sjúklingar, starfsfólk og nágrannar munu verða varir við þessar umfangsmiklu framkvæmdir. Markmið framkvæmdaaðila er þó að vanda svo til verksins að sem minnst ónæði verði af framkvæmdum og verða farnar ýmsar leiðir að því marki. Sumar eru alger nýjung hér á landi. Sérstaklega er horft til hljóð-, ryk og titringsdempunar og má nefna að bílar sem fara af framkvæmdasvæði verða þvegnir áður en þeir fara af svæðinu, hljóðeinangrandi tjöldum verður komið fyrir þar sem jarðvegsvinna fer fram og sérstök hljóðeinangrandi belti sett undir gröfur. Loks er rétt að taka fram að enda þótt hluti bílastæða flytjist til frá því sem verið hefur mun þeim ekki fækka. Frekari kynninga á þessu er að vænta á næstu vikum frá samskiptadeildinni okkar og ég hvet ykkur til að fylgjast vel með.
Hafið það gott um helgina!
Páll Matthíasson