Velvild einstaklinga, samtaka og fyrirtækja í garð Landspítala í formi gjafa er vel þekkt. Slík framlög eru fyrst fremst nýtt til tækjakaupa en einnig til uppbyggingar húsnæðis og átaksverkefna. Stundum fara þessar gjafir hátt, oftar hljótt. Allt ber þetta hlýjum hug í garð starfsemi spítalans vitni. Um hríð var það svo að framlög til tækjakaupa voru hærri en framlag ríkisins. Tækjakaupaframlög ríkisins hafa sem betur fer aukist mjög en engu að síður eru framlög einstaklinga, samtaka og fyrirtækja okkur ómetanleg. Nefna má áratuga farsælt samstarf við Kvenfélagið Hringinn sem staðið hefur vaktina við Barnaspítalann frá upphafi. Einstakt samstarf við Oddfellowhreyfinguna skilaði sér í sérstaklega fallegri líknardeild í Kópavogi sem margir hafa notið góðs af á sínum erfiðustu stundum. Þá má nefna Líf styrktarfélag sem styður við starfsemi kvennadeildar, Lionshreyfinguna, Kiwanis og fjölmarga aðra sem með ötulu starfi og virku samráði við Landspítala stuðla að heill þeirra sem til okkar leita.
Nýlega var tekinn í notkun jáeindaskanni á Landspítalalóð, höfðingleg gjöf Íslenskrar erfðagreiningar til þjóðarinnar allrar. Þetta er kærkomin viðbót við tækjakost spítalans og mikið framfaraskref í þjónustu við sjúklinga. Nokkuð hefur verið rætt um framgang verkefnisins og þar hefur misskilnings gætt sem mikilvægt er að leiðrétta. Uppsetning flókins búnaðar og framleiðslutækni, sem jáeindaskanninn krefst, er stórt verkefni sem þrátt fyrir að tæknin sé ný hér á landi hefur gengið ágætlega og er nú í höfn, þremur árum eftir að hafist var handa við undirbúninginn. Einhverjar væntingar voru um að mögulega yrði hægt að taka skannann í notkun fyrr en reynslan sýnir að þetta er tímafrekt verkefni og gera má ráð fyrir að undirbúningur taki a.m.k. 3-4 ár. Þetta þekkjum við frá nágrannaþjóðum og ágætt dæmi er að nokkru áður en Landspítala barst gjöf Íslenskrar erfðagreiningar fyrir hönd þjóðarinnar árið 2015 fékk háskólasjúkrahúsið í Tromsö, sem að mörgu leyti sinnir áþekkum verkefnum og Landspítali, sambærilega gjöf. Þar hófust byggingarframkvæmdir um haustið en frændur okkar í Noregi gera ráð fyrir að framleiðsla eigin merkiefnis hefjist næsta vor, rúmum fjórum árum eftir að gjöfin var gefin og eru ekki gerðar athugasemdir við það. Reynslan er svipuð af öðru verkefni í Þrándheimi. Við höfum með miklu færri, en afar einbeittum, starfsmönnum náð að ljúka þessu ferli talsvert fyrr og það ber að lofa.
Ein fjölsóttasta og vinsælasta ráðstefna sem Landspítali stendur fyrir er hin þverfaglega ráðstefna „Fjölskyldan og barnið“ sem kvenna- og barnasvið skipuleggur af miklum myndarskap. Ráðstefnan, sem fer fram þann 28. september á Hilton Nordica, ber að þessu sinni yfirskriftina „Fjölskyldan í gleði og sorg“. Sjónum verður beint að þeim áskorunum sem fjölskyldur veikra barna standa frammi fyrir og þeim leiðum sem heilbrigðisstarfsfólki eru færar til að styðja við þær. Fjöldi erinda verður fluttur og rannsóknir kynntar og ljóst að ekki má draga að skrá sig á ráðstefnuna, sem iðulega fyllist fljótt, en skráningu lýkur 24. september.
Góða helgi öll sömul!
Páll Matthíasson