Kæra samstarfsfólk!
í vikunni áttum við stjórnendafund á Landspítala. Slíkir sameiginlegir fundir allra stjórnenda á Landspítala fara nú fram tvisvar á ári og er góður vettvangur til að taka á helstu verkefnunum sem við sameiginlega glímum við.
Í inngangsorðum mínum fór ég aðeins yfir farinn veg. Það er hollt að fara yfir þær áskoranir sem blöstu við okkur haustið 2013 þegar ég tók við sem forstjóri. Þar stóðum við ef svo má segja í rústum hrunsins. Spítalinn var kominn að fótum fram í kjölfar fjársveltis og þeirrar ofuráherslu á rekstur sem við vorum neydd í, að talverður marki á kostnað mannauðsins. Þetta var hálfdapurt haust; rekstrarfé afar takmarkað, Hringbrautarverkefnið stöðugt bitbein og augljóst að framundan var nokkuð torsóttur vegur. Það var líka augljóst að umtalsvert vantraust var til stjórnenda spítalans.
Fyrsta verkefnið var því að setja súrefnisgrímuna á okkur sjálf og gefa skýr merki um að nú væri komið að mannauðnum. Margt hefur gengið okkur í hag í því tilliti, sumt var einfalt, eins og að bjóða starfsfólki kaffibolla í matsölum, annað snúnara eins og að bæta mat starfsfólks og starfsmannafatnað. Starfsánægja jókst en mannauðsmálin eru auðvitað enn krefjandi. Við beinum nú sjónum sérstaklega að þörfum vaktavinnufólks í hjúkrun. t.d. með Heklu-verkefninu, þar er á ferðinni ný hugsun í vinnutíma og umbun og hefur verið vel tekið. Framundan er sömuleiðis mikil vinna vegna jafnlaunavottunar sem allir þurfa að koma að. Hér sé ég tækifæri til að bæta kjör þeirra stétta sem við árum saman höfum talað um að sitji hjá garði enda mun samræmt starfsmat færa á samningaborðið efnisleg tilefni til þess. Ég bind sömuleiðis vonir við innleiðingu Samskiptasáttmálans. Þar er rakið tækifæri til að gera vinnustaðinn okkar betri og spítalann öruggari fyrir alla. Þessi sáttmáli varð ekki til af sjálfu sér, hann er afrakstur vinnu um 700 starfsmanna sem nú ásamt stjórnendum og öðru starfsfólki innleiða þetta mikilvæga verkefni.
Næsta verkefni var að takast á við uppsafnaðan halla hrunáranna. Það var ljóst að árangur Landspítala í rekstri á hrunárunum, sem að hluta var aukinni skilvirkni að þakka, hafði að talsverðu leyti verið tekinn að láni - annars vegar í mannauði og hins vegar í afar takmörkuðu viðhaldi og tækjakosti. Við tók barátta fyrir auknu rekstrarfé sem var misvel tekið af fjárveitingavaldinu eins margir muna. Hins vegar skiluðu rök okkar smám saman árangri og eðlileg krafa stjórnenda spítalans um viðunandi rekstrarfé mætir meiri skilningi nú en oft áður. M.a. hefur nú verið fallist á að bregðast þurfi við lýðfræðilegum breytum í eftirspurn eftir þjónustu Landspítala og er gert ráð fyrir álagsaukningu upp á 1,8% á ári hverju, sem er afar mikilvægt. Vissulega eru áfram áskoranir í rekstrinum, sérstaklega sem afleiðing af skorti á starfsfólki við hjúkrun, útskriftavanda aldraðra og vanreiknuðum launabótum vegna kjarasamninga, sem nema gríðarupphæðum. Þá getur fjárveitingavaldið þó huggað sig við að leitun er að hagkvæmari rekstrareiningu jafnt innan lands sem utan, sem veitir sambærilega þjónustu og Landspítali.
Ekki var minna verkefni að blása lífi í Hringbrautaverkefnið enda andstaðan við það óþarflega heiftúðug á köflum. Sem betur fer tókst að virkja öfluga bandamenn innan og utan spítalans, almenning jafnt sem kröftuga einstaklinga úr nær öllum stjórnmálaflokkum, sem skilja kall tímans í þessu mikilvæga verkefni. Uppbyggingin við Hringbraut er komin á fullt skrið og við horfum til betri tíma í þessu tilliti, þó við gerum svo sannarlega ráð fyrir að næstu ár verði annasöm og á stundum torfær á framkvæmdatímanum.
Þegar ég horfi yfir þessi síðustu ár og skima til þeirra næstu verður það mér æ ljósara að eini fastinn í spítalarekstri er breytileikinn. Þjónusta við sjúklinga tekur sífelldum breytingum, áskoranirnar eru endalausar og stöðug þróun á sér stað á öllum vígstöðvum. Árangur síðustu ára er samstarfi okkar allra að þakka. Verkefni næstu ára eru krefjandi en af reynslu síðustu ára hef ég lært að okkur eru allir vegir færir.
Góða helgi!
Páll Matthíasson