Kæra samstarfsfólk!
Í dag kl. 16:00 hófst formlegur flutningur bráðastarfsemi hjartagáttar til bráðamóttökunnar í Fossvogi en allri bráðaþjónustu við hjartasjúklinga verður beint þangað. Mikill og góður undirbúningur hefur staðið yfir síðustu vikurnar og vil ég þakka það ötula starf sem unnið er við erfiðar aðstæður, enda hefur álag á starfsemina verið gríðarlegt undanfarið. Framundan eru áframhaldandi aðgerðir til að tryggja öryggi sjúklinga og starfsfólks og fyrirsjáanlegt að umtalsvert rask verður á starfseminni meðan við tryggjum nýja verkferla í sessi.
Eins og víðar á spítalanum er mikið gæða- og umbótastarf unnið á degi hverjum á bráðamóttökunni í Fossvogi. Náið samstarf við aðra veitendur heilbrigðisþjónustu hefur mikla þýðingu og það er ánægjulegt að greina frá vel heppnuðu samstarfsverkefni með öllum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu sem og Læknavaktinni sem hófst í júní síðastliðnum. Verkefnið felst í því að beina einstaklingum í það úrræði sem hentar best viðkomandi en við þekkjum vel að sjúklingar leita stundum til okkar með minni háttar vandamál sem betri lausnir fást við á heilsugæslunni. Mikil breyting til batnaðar hefur orðið á þjónustu við sjúklinga með markvissari ferlum og sést marktækur munur í fjölda koma. Heilsugæslan hefur unnið metnaðarfullt starf í þeirri viðleitni að vera fyrsti viðkomustaður fólks innan heilbrigðiskerfisins, samhliða eflingu starfseminnar þar, og við höfum með ánægju tekið þátt í því verkefni.
Myndskeið sem þessu tengist:
Bráðamóttakan
https://www.facebook.com/Landspitali/videos/381036739310041/
Heilsugæslan
https://www.facebook.com/Landspitali/videos/1853712078059922/
Góða helgi!
Páll Matthíasson