Kæra samstarfsfólk!
Enn þyngist róðurinn hjá okkur á spítalanum og hefur þessi vika sem nú er að líða verið okkur afar þung í skauti. Á hefðbundnum bráðasjúkrahúsum er gert ráð fyrir að nýting sjúkrarýma sé um 85%, enda mikilvægt að borð sé fyrir báru í viðkvæmum rekstri. Við höfum undanfarin misseri oftast verið í ríflega 100% nýtingu á bráðalegudeildum okkar og nú í vikunni keyrði um þverbak þegar rúmanýtingin náði 117%!
Við aðstæður sem þessar er augljóst að öryggi sjúklinga er ekki tryggt og því var Embætti landlæknis gert grein fyrir stöðunni sem og velferðarráðuneytinu. Landlæknir ásamt starfsfólki heimsótti bráðamóttökuna í Fossvogi og tilteknar bráðalegudeildir. Ég geri ráð fyrir athugasemdum og ábendingum innan tíðar.
Við vinnum sífellt að endurbótum vinnuferla okkar til að auka skilvirkni en það starf getur aðeins skilað takmörkuðum árangri þegar vandinn byggir að stórum hluta á vanda kerfisins utan hans. Þar vísa ég auðvitað til vel þekkts vanda í uppbyggingu þjónustu við aldraða og aðra sem ekki geta búið heima án stuðnings og þarf ekki að rekja það frekar hér. Það er afar mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að þegar svona er komið á aðalsjúkrahúsi landsins, sem hefur á að skipa mestu og bestu þekkingunni í heilbrigðisvísindum í landinu, er ekki verið að nýta þá miklu krafta og fjárfestingu sem hjá spítalanum liggur með réttum hætti. Þjónusta við þá sem á sjúkrahúsið leita er lakari en við viljum fyrir vikið. Á Landspítala er afar hæft starfsfólk, í heimsklassa vil ég leyfa mér að halda fram, sem vill ekkert frekar en að nýta krafta sína til fulls í þau verkefni sem þeim eru ætluð.
Við erfiðar aðstæður reynir á okkur öll. Við þekkjum það á spítalanum að góð samskipti eru grunnur að góðri þjónustu við sjúklinga og vellíðan samstarfsfólks. Þess vegna eru góð samskipti á ábyrgð okkar allra og við fáum til baka það viðmót sem við sýnum sjálf. Við höfum innleitt samskiptasáttmála hér á Landspítala þar sem við aukum öryggi sjúklinga og bætum líðan starfsfólks með skýrum, skilvirkum, hlýjum og jákvæðum samskiptum. Samskiptasáttmálinn okkar var unninn upp úr nær 900 atvikum í samskiptum á spítalanum sem við drógum fram á þróunarfundum síðastliðið vor. Við horfum bæði til þess sem vel er gert og þess sem betur má fara og í sáttmálanum eru tilgreindir átta þættir þar sem tiltekið er hvernig við viljum vera og hvað við viljum forðast. Gagnkvæm virðing, skýr samskipti og boðleiðir, samvinna og samkennd auka bæði öryggi og vellíðan og skila sér í betri þjónustu við sjúklinga, sem alltaf eru í öndvegi. (Sjá myndskeið)
Á 100 ára afmæli fullveldisins síðastliðinn föstudag hlutu 63 nýdoktorar gullmerki Háskóla Íslands við hátíðlega athöfn að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Þessa heiðurs urðu aðnjótandi einstaklingar sem útskrifuðust frá Háskóla Íslands 1.desember 2017 til 1.desember 2018. Það var ánægjulegt að vera viðstaddur athöfnina og ekki síðra að um þriðjungur doktoranna er af heilbrigðisvísindasviði. Það varpar ljósi á þann kraft sem er í vísindastarfi á þessu sviði, þrátt fyrir talsverðan mótvind á köflum. Því var sérstaklega gaman að afhenda fjölbreyttum hópi ungra vísindamanna styrki úr Vísindasjóði Landspítala til klínískra rannsókna nú í vikunni og hlýða á styrkþegana flytja kynningar um spennandi verkefni sem þeir vinna að. Framtíðin er björt ef við berum gæfu til að fjármagna og hlúa að heilbrigðisvísindum með viðunandi hætti. (Sjá myndskeið)
Góða helgi!
Páll Matthíasson