GROHE á Íslandi færði Landspítala ný og fullkomin GROHE-tæki að gjöf fyrir skemmstu. Búnaðurinn verður notaður í nýjum byggingum spítalans, en verðmæti hans er tæplega 3 milljónir króna.
"Landspítali er þjóðarsjúkrahús og öflugasta stoð íslenska heilbrigðiskerfisins. Spítalinn er hins vegar sumpartinn vanbúinn tækjum og oftar en ekki illa fjármagnaður. Við viljum með þessari gjöf þakka mannauðnum á Landspítala fyrir óeigingjarnt starf og fyrsta flokks þjónustu við erfiðar aðstæður. Við hjá GROHE, RAMIS og BYKO hugum að öryggi og velferð sjúklinga og starfsfólks og leggjum Landspítala lið með stolti," sagði Ómar Kristjánsson, forstjóri RAMIS, við afhendingu gjafarinnar.
GROHE er einn stærsti framleiðandi blöndunar- og hitastýritækja í veröldinni og starfar hér á landi í samvinnu við umboðsaðilann RAMIS og söluaðilann BYKO.
Á meðfylgjandi mynd þakkar Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans Ómari Kristjánssyni hjá RAMIS og Jóni Steinari Magnússyni hjá BYKO fyrir gjafirnar frá GROHE.