Kæra samstarfsfólk!
Gleðilegt ár!
Ég vona að hátíðarnar hafi fært ykkur góðar stundir með ykkar nánustu og hækkandi sól boði okkur öllum ánægju og gleði á árinu sem er framundan.
Það er við hæfi í upphafi árs að kynna nýja starfsáætlun og uppfærða stefnu (sjá stefna.landspitali.is). Stefnuþríhyrningurinn sjálfur tekur ekki breytingum enda liggja gildin okkar fjögur starfinu ávallt til grundvallar en þau eru eins og þið þekkið umhyggja, fagmennska, öryggi og framþróun. Stefnuáherslurnar fjórar; öryggismenning, þjónusta, mannauður og stöðugar umbætur eru grunnstef starfsáætlunarinnar sem ég vil vekja sérstaka athygli ykkar á. Á þessu ári leggjum við m.a. áherslu á öryggis- og umbótaþjálfun starfsfólks, eflingu hjúkrunar, bættan aðbúnað starfsfólks og styrkingu stoðþjónustu. Til að fylgja þeim áherslum eftir leggjum við fram markmið um að bæta hvern árangursvísi, s.s. hlutfall starfsmanna sem fengið hefur öryggisþjálfun, ánægju sjúklinga með þjónustu okkar, starfsánægju og ánægju starfsmanna með stoðþjónustu. Þetta eru metnaðarfull markmið sem við öll munum vinna sameiginlega að en það er ekki síður spennandi verkefni einstakra sviða og eininga að setja sér starfsáætlun, eins og flestir hafa gert undanfarin ár. Við munum síðan kynna stefnumótun spítalans frekar á næstu vikum.
Öryggi sjúklinga er okkur ætíð efst í huga. Í öryggisvegferð okkar leggjum við áherslu á að fyrirbyggja atvik en á sama tíma að stuðla að öryggismenningu þar sem við segjum óhrædd frá frávikum svo við getum lært af þeim. Á undanförnum árum höfum við skoðað og rannsakað með skipulegum hætti alvarleg atvik sem á spítalanum verða. Þetta gerum við til að geta greint orsakir þess að eitthvað fer aflaga hjá okkur. Fjölmargir þættir spila þar stórt hlutverk og í alvarlegustu atvikum sést iðulega röð frávika sem að lokum leiðir til hinnar afleitu niðurstöðu. Einn er sá þáttur sem kemur nánast alltaf til skoðunar í slíkum málum en það eru samskipti og samskiptabrestur. Í flóknu umhverfi fjölmargra sérfræðinga þar sem hraði ákvarðana er mikill og samskipti eiga sér stað undir miklu álagi getur ýmislegt farið úrskeiðis. Því leggjum við sérstaka áherslu á samskipti á Landspítala, eins og starfsmenn þekkja mæta vel með innleiðingu samskiptasáttmálans. Vegna þess að samskipti spila hlutverk í nær öllum þeim alvarlegu atvikum sem við sjáum þá þurfum við öll að skoða okkar eigin samskipti og er þar ekkert okkar undanskilið. Við eigum að taka samskipti mjög alvarlega, gera kröfu um góð samskipti í öllum aðstæðum og ástunda þau sjálf. Við eigum aldrei að líða slæm samskipti, hvorki óvirðingu, óþolinmæði, ónærgætni né yfirlæti og hvað þá einelti, kynbundna eða kynferðislega áreitni. Kynnið ykkur samskiptasáttmálann okkar og ef þið eruð ekki þegar með hann ykkur efst í huga vil ég hvetja ykkur til að gera það. Árið 2019 á að verða ár bættra samskipta á Landspítala og það er á ábyrgð okkar allra.
Góða helgi!
Páll Matthíasson