Kæra samstarfsfólk!
í gær fengum við ánægjulega heimsókn forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra ásamt aðstoðarkonum þeirra á spítalann. Þær náðu góðri kynningu á tilteknum starfsemisþáttum sem verið hafa í deiglunni; stöðuna á bráðamóttökunni, þjónustu við hjartasjúklinga og uppbygginguna við Hringbraut. Þar að auki litum við við á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis og gestirnir sátu stöðumat spítalans. Markmið okkar með þessari yfirferð var að gefa ráðherrunum innsýn í þau gríðarstóru og fjölbreyttu verkefni sem við hér á Landspítala fáumst við. Staðreyndin er sú að jafnvel þó að um okkur blási á stundum er enginn betri til þess fallinn að sinna flóknustu verkum heilbrigðisþjónustunnar en einmitt við á Landspítala (sjá myndskeiðið sem fylgir og ljósmyndir).
Í dag fögnum við 70 ára afmæli kvennadeildar Landspítala. Á kvennadeild veitum við sérhæfða læknis- og hjúkrunarþjónustu fyrir konur í meðgöngu, fæðingu og sængurlegu en einnig þjónustu við konur með almenna og illkynja kvensjúkdóma. Landsmenn hafa flestir notið þjónustu kvennadeildar enda fæða langflestar konur börn sín hjá okkur og nýtur fjölskyldan faglegrar þjónustu okkar frábæra starfsfólks þar. Starfsfólk kvennadeildar hefur lengi verið í framvarðarsveit öflugrar teymisvinnu og hefur verið leiðandi í gæðavinnu þar sem fáir standa jafnfætis í gerð gæðahandbóka og verkalagsferla. Eins og víðar hefur starfinu fleygt fram undanfarin ár með aukinni tækni- og þekkingarþróun og er árangurinn eftir því. Einn helsti mælikvarði á gæði heilbrigðisþjónustu er burðarmálsdauði og þar er Ísland í allra fremstu röð. Svo var ekki alltaf en þetta getum við þakkað öflugri mæðravernd og faglegu starfi heilbrigðisstétta út um allt land, með algerri kjölfestu í kvennadeild Landspítala. Innilega til hamingju landsmenn allir!
Enda þótt klínísk þjónusta sé eðli máls samkvæmt í forgrunni starfseminnar þá vitum við öll að marga aðra þjónustuþætti þarf til að verkefnin okkar gangi smurt. Á spítalanum eru sex klínísk svið og fimm stoðsvið sem hvert og eitt hefur mikilvægu hlutverki að gegna í því mikla gangverki sem spítalinn er. Í morgun birti þjónustudeild rekstrarsviðs spítalans eins konar uppgjör ársins og þar kennir ýmissa grasa og varpar ljósi á umfang starfseminnar - ég gef þeim orðið:
Í þjónustudeild rekstrarsviðs starfar öflugur hópur starfsmanna að fjölbreyttri og mikilvægri þjónustu við deildir spítalans. Starfsmenn sátu ekki auðum höndum á árinu 2018 fremur en venjulega. Meðal þess sem við gerðum var...
- Fórum um 18.200 ferðir milli Hringbrautar og Fossvogs og fluttum um 25.000 farþega.
- Fluttum um 23.500 akútsýni.
- Fluttum um 44.000 sjúklinga.
- Fórum í um 6.300 ferðir með lyf og lyfjablöndur.
- Fórum í um 2.100 ferðir með blóðeiningar.
- Fluttum um 2.100 böggla og sérsendingar.
- Þrifum og bjuggum upp um 8.500 rúm í rúmaþjónustu.
- Svöruðum um 500.000 símtölum í þjónustuveri.
- Spjölluðum um 1.500 sinnum við viðskiptavini í gegnum netspjall í þjónustuveri.
- Byrjuðum heimsóknir til deilda til að ræða hvernig þjónustuver getur greint símtöl fyrir deildir, unnið með þeim að bættri símþjónustu og yfirtekið verkefni og jafnvel símtöl með það að markmiði létta álagi af deildum.
- Hófum tilraunir með nýtt skiptiborðskerfi.
- Byrjuðum vinnu með deildum sem snýst um að fækka skráðum númerum á miðlum eins og já.is, 1819 og á heimasíðu spítalans.
- Byrjuðum í þjónustuveri að skrá viðskiptavini í símatíma hjá biðlistastjórum á B3
- Tókum við fataafgreiðslum í Fossvogi og á Hringbraut af þvottahúsi og ræstingu.
- Byrjuðum að koma á línpöntunar- og áfyllingarþjónustu á deildum.
- Bættum flutningaþjónustu um helgar með því að hafa opið lengur.
Vel gert og takk!
Góða helgi!
Páll Matthíasson