Kvenna og barnasvið Landspítala hefur ákveðið að stofna rannsóknarstofu í samvinnu við Háskóla Íslands, með svipuðum hætti og gert hefur verið t.d. í öldrun og bráðafræðum.
Markmið rannsóknarstofunnar er að vera miðstöð rannsókna og skapa samfélag fyrir rannsakendur á sviði fæðinga-, kvenna-, barna- og fjölskyldufræða. Einnig að stuðla að þverfaglegri samvinnu fræðimanna Landspítala og HÍ sem eiga það sammerkt að vinna að rannsóknum á þessu sviði og skapa vettvang fyrir háskólanema, t.d. BS, meistara- og doktorsnema í þessum fræðigreinum og veita þeim aðstöðu til rannsóknarstarfa og tækifæri til að þjálfa vísindaleg vinnubrögð.
Tilkynnt var um fyrirhugaða rannsóknarstofu á 70 ára afmæli kvennadeildar 11.janúar 2019. Á þeim degi afhenti Minninga- og gjafasjóður Landspítala Íslands (MLÍ) kvenna- og barnasviði rausnarlega gjöf að upphæð 50 milljónir króna, sem er stofnfé rannsóknarsjóðs rannsóknarstofunnar. Sjóðnum er ætlað að veita rannsóknarstyrki en Landspítali sér um rekstur stofunnar. Gjöf MLÍ skapar nýjan grundvöll fyrir öflugt rannsóknarstarf og nýsköpun á kvenna- og barnasviði.