Landspítali fékk nýtt sjúkrahótel formlega afhent við athöfn 31. janúar 2019.
Lykilvöldin færði til fjármálaráðherra Erlingur Ásgeirsson, stjórnarformaður Nýs Landspítala ohf. eftir ávarp Gunnars Svarssonar, framkvæmdastjóra NLSH, en á könnu þess fyrirtækisins er Hringbrautarverkefnið þar sem meginverkið er að byggja nýjan meðferðarkjarna spítalans. Því næst afnenti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra lyklavöldin sem aftur afhenti þau forstjóra spítalans, Páli Matthíassyni. Landspítala hefur verið falið að reka sjúkrahótelið næstu tvö árin. Stefnt er að því að opna sjúkrahótelið 1. apríl.
Fjöldi manns var við athöfnina á sjúkrahótelinu, þar á meðal nokkrir fyrrverandi heilbrigðisráðherrar.
Nýja sjúkrahótelið stendur við nýnefnda Hildigunnargötu sem liggur frá kvennadeild og aðalinngangi á Landspítala Hringbraut upp að Barónsstíg. Húsið tengist kvennadeildahúsi með undirgöngum og þar með öðrum starfseiningum Landspítala. Staðsetning þess í kjarnastarfseminni við Hringbraut er þannig ákaflega góð fyrir þá sjúklinga sem þar eiga eftir að dvelja og aðstandendur þeirra.
Sjúkrahótelið er 4.300 fermetrar á fjórum hæðum, alls 75 herbergi; einstaklingsherbergi, fjölskylduherbergi, herbergi fyrir fatlaða og setustofur. Á neðstu hæð er gestamóttaka, aðstaða til veitinga og tvö herbergi sem eru ætluð fyrir þjónustu hjúkrunarfræðinga.