Kæra samstarfsfólk!
Í gær kom fjöldi fólks saman í tilefni afhendingar sjúkrahótelsins á Hringbrautarlóðinni. Þetta var langþráð stund en jafnframt ánægjuleg enda hefur talsvert átak margra þurft til að koma þessu verkefni í örugga höfn á Landspítala. Í öllu því argaþrasi sem virðist ætið fylgja uppbyggingu húsakosts virðist stundum gleymast hvers vegna af stað er farið. Þessi uppbygging snýst ekki um byggingarmagn, steypu, rúmmál eða fermetra - heldur eðlilega þróun í uppbyggingu þeirrar sérhæfðu og flóknu þjónustu sem okkar veikasta fólk þarf á að halda og okkar besta fólk veitir.
Það er mikil tilhlökkun í okkar hópi að auka þjónustu við skjólstæðinga og fjölskyldur þeirra og við munum svo sannarlega kappkosta að sjá til þess að þessi viðbót við húsakost Landspítala nýtist þeim sem hann helst þarf enda á sjúklingurinn ætíð að vera í öndvegi.
Í janúar var útskrifað úr umönnunarskóla öldrunardeilda í þriðja skipti. Umönnunarskólinn er að festast í sessi hjá okkur en þar fá ófaglærðir starfsmenn, bæði nýráðnir og aðrir með reynslu, leiðsögn í grundvallaratriðum í umönnun aldraðra. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með þróun skólans þar sem markviss samvinna reyndra sjúkraliða og sérfræðinga í hjúkrun hefur skilað sér í metnaðarfullri dagskrá skólans, sem lýkur með prófi og formlegri útskrift. Til hamingju allir 27 sem nú hafa útskrifast!
Árið 2017 var jafnréttislögum breytt á þann hátt að nú er það skylda stofnana að koma upp jafnlaunakerfi, sýna fram á að framkvæmdin uppfylli kröfur jafnlaunastaðalsins ÍST 85 og fá það staðfest af til þess bærum vottunaraðila. Tilgangur jafnlaunavinnunar er að uppfylla lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en að sjálfsögðu viljum við öll á Landspítala nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls og því er okkur ljúft og skylt að takast á við þetta verkefni. Við höfum raunar þegar ráðist í umtalsverða vinnu vegna þessa og framundan eru sömuleiðis mörg verkefni. Vegferðina hófum við með því að samþykkja jafnlaunastefnu; Starfsfólk skal fá greidd jöfn laun og njóta sömu starfskjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og við stefnum að því að fá jafnlaunavottun í lok þessa árs. Þetta er krefjandi en spennandi og sjálfsagt verkefni sem ég bind miklar vonir við.
Góða helgi!
Páll Matthíasson