Kæra samstarfsfólk!
Á hádegi í dag, föstudaginn 8. febrúar, var Gömlu Hringbraut lokað sunnan við elstu byggingar Landspítala. Sjá á korti. Ástæðan er jarðvegsframkvæmdir vegna nýs meðferðarkjarna sem er einn verkhluti af mörgum í Landspítalaþorpinu við Hringbraut. Lokun Hringbrautar á þessum stað hefur mikil áhrif á umferðaflæði um svæðið, hvort heldur fólk fer þar um gangandi, með strætó eða á eigin bifreiðum. Ég hvet ykkur eindregið til að kynna ykkur vandlega framkvæmdafréttir, hvort heldur þær berast frá Landspítala, NLSH, Strætó eða öðrum sem tengjast verkefninu beint eða óbeint. Með lokun Gömlu Hringbrautar munu til dæmis verða talsverðar breytingar á akstri strætisvagna og allar nánari upplýsingar um það má finna hér - breytingar á leiðakerfi Strætó.
Einnig hafa jarðvegsframkvæmdirnar mikil áhrif á gönguleiðir á framkvæmdasvæði nýbygginga í Landspítalaþorpinu.
Nánari upplýsingar um breytingar á gönguleiðum eru útskýrðar hérna - breyttar gönguleiðir við Hringbraut (myndskeið).
Mikið rask kallar á þolinmæði
Nýbyggingar Landspítala við Hringbraut eru stærsti áfanginn í íslensku heilbrigðiskerfi í meira en hálfa öld. Byggingarnar munu hafa í för með sér byltingu í aðstöðu og öryggi fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. En þessi vetur verður þó langsamlega erfiðasta og átakamesta tímabil framkvæmdanna vegna nálægðar við starfsemi spítalans og áhrifa á allt frá bílastæðum til gönguleiða. Áætlað er að að byggingu meðferðarkjarnans ljúki árið 2024 en þungi framkvæmdanna færist fjær spítalanum strax nú sumarið 2019. Starfsfólk og sjúklingar fara ekki varhluta af þessari miklu uppbyggingu og við þökkum jafnt þeim sem öðrum vegfarendum kærlega fyrir þolinmæðina. Mikið rask hefur verið í umhverfi spítalans og umferð þungavinnutækja er mjög truflandi. Heilt yfir hafa framkvæmdirnar þó gengið mjög vel og þökk sé nýrri tækni við borun og sprengingar. Sá tiltekni verkþáttur hefur til að mynda verið þægilegri en búist var við. Á sérstakri vefsíðu Landspítala um verkefnið er að finna yfirgripsmiklar upplýsingar um framkvæmdirnar og tugi myndskeiða, korta og mynda - Vefsíða um framkvæmdirnar við Hringbraut.
Nýtt hlaðvarp Landspítala
Í vikunni hleyptum við nýju Hlaðvarpi Landspítala af stokkunum. Hlaðvarpið er kærkomin viðbót í þá flóru af upplýsingaveitum sem við nýtum okkur til að miðla því öfluga starfi sem fram fer hér á spítalanum og á oft erindi við landsmenn alla. Í fyrsta þættinum er rætt við Hans Tómas Björnsson, nýráðinn yfirlækni erfða- og sameindalæknisfræðideildar, sem er framúrskarandi vísindamaður á heimsmælikvarða. Hlaðvarpið veitir okkur meðal annars tækifæri á að leggja á djúpið í ítarlegri umfjöllun um flókin mál enda hentar þessi miðlunarleið mörgum vel. Eina sem þarf er farsími, snjalltæki eða tölva ásamt heyrnartólum eða hátalara. Hér eru ýmis tækifæri til að fjalla almennt um spennandi efni, en sömuleiðis opnar þessi möguleiki nýjar víddir í sjúklingafræðslu sem spennandi verður að þróa áfram. Hlaðvarp Landspítala er aðgengilegt á Internetinu, vef spítalans og samfélagsmiðlum ásamt helstu hlaðvarpsveitum, til dæmis Spotify og Podcast Addict - Hlaðvarp Landspítala.
Framlög til vísindasjóðs Landspítala aukin um 20%
Ný vísindastefna Landspítala til næstu fimm ára var samþykkt í framkvæmdastjórn fyrir skemmstu. Stefnan er grundvölluð á víðtæku samráði við vísindafólk og aðra hagsmunaaðila innan Landspítala. Vísindastarfið er eitt af þremur meginhlutverkum Landspítala og samofin daglegri starfsemi okkar. Við stefnum sífellt að betri umgjörð fyrir vísindarannsóknir og viljum smíða hvata fyrir okkar frábæra starfsfólk til að ná enn frekari árangri í vísindum. Samhliða er unnið að því að hækka fjárframlög til vísindarannsókna innan spítalans, þannig að þau séu sambærileg við fjárframlög til norrænna háskólasjúkrahúsa. Sem lítið skref á þeirri vegferð aukum við nú framlög til vísindasjóðs um nærri 20% milli ára.
Góða helgi!
Páll Matthíasson