Kæra samstarfsfólk!
Framkvæmdir við uppbyggingu Landspítala við Hringbraut standa nú yfir eins og öllum er ljóst - sérstaklega þeim sem fara um svæðið! Áríðandi er fyrir starfsmenn að fylgjast með fréttum og tilkynningum af framkvæmdum enda hafa þær áhrif á allar samgönguleiðir um svæðið.
Framkvæmdirnar við Hringbraut
Nú eru miklar framkvæmdir mjög nærri Barnaspítala Hringsins og elstu byggingu spítalans en þeim lýkur fljótlega og færist þá þungi framkvæmdanna fjær starfseminni hjá okkur. Gjaldskyld stæði eru næst inngöngum spítalans en ókeypis stæði eru fjær byggingum sem allir hafa aðgang að. Ástæða gjaldskyldunnar er sú að það er auðveldasta leiðin til að tryggja þeim sem þurfa auðvelt aðgengi að spítalanum og eru stæðin fyrst og fremst ætluð sjúklingum, aðstandendum og gestum. Við erum þó alltaf að kanna mögulegar leiðir í þessu enda mörgum gjaldið þyrnir í augum.
Í nóvember á síðasta ári fól heilbrigðisráðherra Landspítala þjónustu við börn í fíknivanda. Verkefnið er flókið og krefst þverfaglegrar aðkomu ýmissa sérfræðinga innan spítalans og náinnar samvinnu við stofnanir utan hans. Hvergi á landinu er samankomin meiri sérfræðiþekking á þessu sviði en einmitt á Landspítala og því eðlilegt að spítalinn hafi forystu um það. Málinu miðar ágætlega hjá okkur, verkefnastjóri hefur hafið störf og undirbúningur húsnæðisbreytinga stendur yfir. Eftir yfirlegu varð niðurstaðan sú að þjónustan verður í geðdeildarbyggingunni við Hringbraut en meðferðin verður á vegum þverfaglegs teymis. Þetta er afar mikilvægt verkefni sem snýr að þjónustu við sérstaklega viðkvæman og flókinn hóp og ég fagna því trausti sem heilbrigðisráðherra sýnir okkur með því að fela okkur verkefnið.
Í gær tilkynnti heilbrigðisráðherra um fjármagn til heilsugæslunnar um land allt til eflingar geðheilbrigðisþjónustu. Þetta er sérstaklega ánægjulegt og mikilvægt framfaramál fyrir heilbrigði þjóðarinnar. Það er oft sagt að það sé engin heilsa án geðheilsu og rétt er það að geðvandi og geðsjúkdómar eru svo algengir að góð geðheilbrigðisþjónusta á að flokkast undir almenna heilbrigðisþjónustu sem þarf að vera í boði um land allt. Geðsvið Landspítala er mikilvægur bakhjarl geðheilsuteyma út um landið og verið er að þróa verklag og tæknilausnir til að þetta samstarf geti verið sem allra best með teymisvinnu og nýtingu fjarheilbrigðisþjónustu.
Nú þegar sér undir lok þorra leyfir maður sér að horfa til vorsins, þótt við enn um sinn fáum vafalaust að finna fyrir vetrinum. Vorið er hins vegar líflegt tímabil á spítalanum og framundan margir spennandi viðburðir. Í næstu viku er bráðadagurinn, vika hjúkrunar nálgast sem og vísindi á vordögum. Fylgist vel með á miðlum spítalans og takið þátt í öflugu fræðslu- og þróunarstarfi vorsins.
Góða helgi!
Páll Matthíasson