Kæra samstarfsfólk!
Eins og ykkur flestum er vonandi kunnugt hefur starfsfólki staðið til boða að gera samgöngusamning við Landspítala, þar sem markmiðið er að auka vistvænar samgöngur. Starfsfólk hefur tekið þessu afar vel en við höfum að undanförnu leitað leiða til að mæta þörfum sem flestra, enda starfsmenn spítalans margir og ferðavenjur misjafnar. Það er því ánægjulegt að kynna ykkur að frá og með í dag bjóðast ykkur nýjar leiðir í gerð samgöngusamnings, þar sem við fögnum sérstaklega samningi við Strætó um kostakjör til starfsmanna á strætókortum. Starfsmönnum bjóðast nú strætókortin á 56% afslætti auk þess sem mánaðarlegar greiðslur frá Landspítala standa einnig til boða. Ég hvet ykkur eindregið til að skoða möguleikana og sjá hvort einhver leið kunni að henta ykkur.
Í dag, 1. mars, er Bráðadagurinn. Flæðisvið stendur nú fyrir metnaðarfullri dagskrá undir fyrirsögninni "Flæði bráðveikra - sjúklingar, starfsfólk og starfsumhverfi". Á ráðstefnunni eru kynntar rannsóknir í bráðafræðum ásamt fjölbreyttum gæðaverkefnum og öðru spennandi efni. Ánægjulegt er að sjá sérstaka umfjöllun um það mikla samstarf sem bráðamóttakan á við aðra aðila í heilbrigðisþjónustunni bæði hér á Reykjavíkursvæðinu og út um allt land. Bráðamóttakan er gáttin inn á spítalann og þar er aldrei lognmolla og reyndar - eins og vel þekkt er, gríðarlegt álag öllu jafna. Engu að síður nær bráðamóttakan að sinna sínu hlutverki gagnvart bráðveikum afar vel eins og allar mælingar sýna, því enda þótt hraðinn í starfseminni sé mjög mikill, þá eru hlýja og fagmennska starfsfólksins einkennismerki deildarinnar. Til hamingju með daginn!
Í morgun fór fram ráðstefna þar sem kynnt var skýrsla nefndar á vegum forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna (https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=03be6340-3bfc-11e9-9436-005056bc4d74). Um allan heim veltir fólk fyrir sér áhrifum þessarar byltingar og í flóknum geira eins og í heilbrigðisþjónustunni felast auðvitað gríðarleg tækifæri í tækniframförum. Sjálfvirknivæðing mun hafa áhrif á mörg störf, en það er þó niðurstaða þeirra sem gerst hafa skoðað að enda þótt byltingin muni hafa áhrif á starfsumhverfi þá er ólíklegt að beinum störfum í heilbrigðisþjónustu muni fækka. Þetta er af því að flest störf í heilbrigðisþjónustu krefjast mikilla beinna samskipta fólks. Þannig er því spáð að meðal þeirra örfáu starfa sem við þekkjum í dag þar sem búast má við að mannaflaþörfin aukist er hjúkrun. Um þetta fjallaði Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, nýlega í hlaðvarpi Landspítala og sömuleiðis áttu hún og Ólafur Baldurson áhugavert samtal um tæknilausnir í heilbrigðisþjónustu við þáttastjórnendur í ríkisútvarpinu í vikunni. Framtíðin er í heilbrigðisþjónustunni!
Góða helgi!
Páll Matthíasson