Mannauðssvið Landspítala hefur ræst verkefnið „Vellíðan í vaktavinnu.“ Markmið þess er að bæta vinnuskipulag og niðurröðun vakta, styrkja gæði vaktaáætlana og auka vitund starfsfólks um þætti, sem dregið geta úr vinnutengdu álagi og eflt heilsu og vellíðan. Inn í fræðsluna koma atriði á borð við svefn og lífsstíll. Jafnframt verður kennt að gera betri vaktaáætlanir.
Átakið er með öðrum orðum tvískipt og snýst annars vegar um að gera betri vaktaáætlanir með hliðsjón af hvíldartíma starfsfólks og hins vegar um heilsueflingu með sérstakri áherslu á að bæta svefn, hvíld og næringu vaktavinnufólks.
Í verkefninu felst meðal annars eftirfarandi:
- Fræðsla fyrir allt starfsfólk um vaktavinnu, svefn, líkamsklukku og lífsstíl.
- Fræðsla um hvernig best er að raða vöktum með tilliti til heilsu og líðan.
- Fræðsla og þjálfun í gerð vaktaáætlana fyrir vaktasmiði og stjórnendur.
- Innleiðing verklags sem getur dregið úr álagi í vaktavinnu og bætt líðan, til dæmis með betra verkefnaskipulagi á næturvöktum, orkublundum og notkun dagljósalampa.
- Aðgengi að hollri næringu á vöktum verður bætt til muna.
Mannauðsssvið hvetur starfsfólk, teymi og starfseiningar til að sækja sér fræðslu af þessu tagi. Hægt er að senda póst á netfangið vellidan@landspitali.is í því skyni. Einnig hægt að hafa samband við verkefnisstjórann Berglindi Helgadóttur á samskiptamiðlinum Workplace.
Fræðsluvefur um Vellíðan í vaktavinnu
Viðmælendur í myndskeiði:
Berglind Helgadóttir, starfsmannasjúkraþjálfari hjá mannauðssviði
Erna Sif Arnardóttir, rannsóknarsérfræðingur við Háskólann í Reykjavík og Landspítala
Helga Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri hjá mannauðssviði