Kæra samstarfsfólk!
Í gær héldu Blóðgjafasamtök Íslands aðalfund sinn hjá okkur í Hringsal. Auk venjulegra aðalfundarstarfa var fjöldi blóðgjafa heiðraður og meðal þeirra sem tók við viðurkenningu fyrir að hafa gefið blóð 50 sinnum var Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Aðalsteinn Sigfússon (myndin er af honum), félagsmálastjóri Kópavogsbæjar, var sérstaklega heiðraður fyrir að hafa gefið blóð alls 200 sinnum og eru þeir nú þrír sem þeim áfanga hafa náð. Landspítala berast á hverju ári gjafir af ýmsu tagi en blóðgjöf er svo sannarlega lífgjöf og magnað að fólk eins og þeir Aðalsteinn og Guðni gefi hið dýrmætasta sem við eigum - tíma sinn auk þess að gefa af sér með svo bókstaflegum hætti! Ég vil þakka Blóðgjafafélaginu ötult starf og öllum blóðgjöfum sérstaklega!
Landspítali veitir flókna þjónustu allan sólarhringinn, alla daga ársins fyrir landsmenn alla og gesti þeirra. Þetta kallar augljóslega á vinnuframlag sérhæfðs starfsfólks allan sólarhringinn og það þarf að geta sinnt sínum störfum sama hvað klukkan er. Vaktavinna er hins vegar afar krefjandi, eins og allir vita sem hana hafa stundað og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á. Við höfum því hleypt af stokkunum verkefninu „Vellíðan í vaktavinnu“ þar sem markmiðið er að draga úr vinnutengdu álagi og efla heilsu og vellíðan. Það er mannauðssvið sem heldur utan um verkefnið en við viljum bæta gerð vaktaáætlana með hliðsjón af hvíldartíma starsfólks og sérstaklega huga að þáttum sem snúa að bættum svefni, hvíld, næringu og andlegri heilsu. Kynnið ykkur endilega hvað verkefnið snýst um hér.
Eins og áður tekur Landspítali þátt í sameiginlegri starfsumhverfiskönnun allra ríkisstofnana „Stofnun ársins“. Könnunin er mælikvarði á og samanburður á frammistöðu ríkisstofnana hvað varðar starfsánægju, stjórnun, starfsanda og fleiri mikilvæga starfsumhverfisþætti. Það er Gallup sem sér um framkvæmd könnunarinnar og sér um útsendingu og úrvinnslu hennar. Fyrirtækið hefur sent úrtaki starfsmanna könnunina og ég hvet þá sem boð hafa fengið um þátttöku eindregið til að svara henni. Það er okkur mikilvægt að sjá hvar við stöndum og hvar við eigum/verðum að bæta okkur.
Góða helgi!
Páll Matthíasson