Kæra samstarfsfólk!
Í vikunni kvöddum við góða samstarfsfélaga í starfslokaboði. Við efnum til boðs af þessu tagi árlega hér á spítalanum og þangað er boðið öllum þeim sem látið hafa af störfum aldurs vegna árið á undan ásamt nánu samstarfsfólki þeirra og fjölskyldum. Það er mér bæði skylt en sérstaklega ljúft að taka þátt í þessari stund. Að þessu sinni mættu um 100 manns og við áttum mjög skemmtilega stund saman. Það var ánægjulegt að hitta þennan glæsilega hóp. Sjálfur mátti ég til með að láta smella mynd af mér ásamt þeim Maríu Markúsdóttur og Ernu Jónasdóttur, sem báðar kvöddu Landspítala eftir ríflega 50 ára starf. Þakka ykkur öllum - og auðvitað fjölskyldum ykkar sem vafalaust hafa mátt sjá af ykkur á allskyns hátíðarstundum þegar skyldan hefur kallað.
13. mars er alþjóðlegur dagur óráðs og af því tilefni stóðu hjúkrunarráð, skurðlækningasvið og lyflækningasvið fyrir metnaðarfullu málþingi - Ráð í óráði - og komust færri að en vildu! Óráð (bráðarugl/delerium) er afar alvarlegt og flókið vandamál og dregur verulega úr batahorfum þeirra sem það fá. Heilkennið einkennist af truflun á athygli, meðvitund, vitrænni getu einstaklingsins ásamt brenglaðri skyntúlkun Afar mikilvægt er, í ljósi þess hversu alvarlegum afleiðingum óráð getur valdið, að við séum vakandi fyrir einkennum þess. Sérstakur vefur með miklum upplýsingum um óráð var opnaður í tilefni alþjóðadagsins og er hann öllum opinn.
Landspítali hefur, eins og margir aðrir opinberir aðilar, mátt bregðast við mislingatilfellum sem því miður skutu upp kollinum hér á landi nýlega. Sýkingavarnardeild Landspítala hefur af fullum þunga beitt sér í málinu og hefur fyrir hönd Landspítala átt farsælt samstarf við sóttvarnalækni og aðra auk þess að skipuleggja viðbragð okkar við þessari vá. Ég vil þakka sýkingavarnardeild, í miðjum önnum vegna annarra hefðbundinna árstíðabundinna smitfaraldra, frábært starf og veit að starfsfólk hennar stendur vaktina fyrir okkur áfram.
Góða helgi!
Páll Matthíasson