Kæra samstarfsfólk!
Þrýstingssár eru alvarlegur fylgikvilli legu og geta verið mjög kvalafull. Sjúklingar á sjúkrahúsum eru sérstaklega útsettir fyrir þessu vandamáli og það er margra mat að tíðni þeirra á deildum sé einn mælikvarði á hjúkrunina sem þar er veitt. Á háls-, nef- og lýtalækningadeild A4 hefur verið unnið eftirtektarvert forvarnarstarf á þessu sviði. Á deildinni starfar samhentur hópur í hjúkrun og nýtir 5 punkta kerfi (HAMUR) til að fyrirbyggja að þrýstingssár myndist. Starfsfólk hefur sýnt mikið frumkvæði og unnið afar faglega að þessum metnaðarfulla verkefni enda hlaut deildin og starfsfólk hennar sérstaka og verðskuldaða viðurkenningu þegar 100 dagar höfðu liðið án þess að þrýstingssár uppgötvuðust á deildinni. Þetta er til algerrar fyrirmyndar, til hamingju!
Eins og mörgum ykkar er kunnugt um og ég hef fjallað um á þessum vettvangi áður höfum við í vetur unnið að undirbúningi þess að auka þjónustustig á klínískum deildum og þannig sömuleiðis öryggi sjúklinga og starfsmanna. Fjöldi starfsfólks hefur komið að málinu og nú liggja fyrir þrenn drög að samkomulagi; um þjónustu vegna lyfja, vegna fasteigna og vegna reksturs (rekstrarvörur, flutningar, lín og starfsmannafatnaður). Á vormánuðum stefnum við að því að hefja þróun þessa verkefnis á 19 deildum. Í kjölfarið verður þjónustusamkomulagið um þessa þrjá verkþætti innleitt í skrefum á öðrum deildum spítalans í janúar 2020. Þetta er spennandi nýjung hjá okkur þar sem markmiðið er jú eins og áður sagði að létta álagi á klínísku starfsfólki og auka öryggi þess og sjúklinga spítalans.
Fæstir við Hringbraut fara varhluta af miklum framkvæmdum við Hringbrautarverkefnið. Þær eru auðvitað fyrst og fremst ánægjulegar enda löngu tímabærar. En eins og við höfum áður kynnt þá var gert ráð fyrir að yfirstandandi vetur yrði sá mest krefjandi fyrir starfsemina hjá okkur enda framkvæmdir næst eldri byggingum. Góðu fréttirnar eru þær að mesta raskið er nú senn að baki og upp úr miðjum júní færist þungi framkvæmdanna að hinum eiginlega meðferðarkjarna. Þá mun meiri stöðugleiki færast yfir framkvæmdasvæðið og truflanir á umferð verða minni. Nú hafa akstursleiðir að spítalanum við Hringbraut breyst og ég hvet ykkur til að kynna ykkur, sjúklingum og aðstandendum þær.
Að endingu minni ég á að enn er hægt að taka þátt í verkefninu „Brjótum hefðir, bætum þjónustu“ en það er árleg vitundarvika á Landspítala þar sem við söfnum tillögum frá jafnt starfsfólki og sjúklingum sem almenningi til að bæta upplifun af þjónustu spítalans. Vinnum síðan markvisst úr þeim. Í fyrra bárust okkur 200 góðar tillögur og höfum komið flestum þeirra í farveg. Vitundarvikan er hluti af umbótastarfi Landspítala undir merkjum straumlínustjórnunar (lean) og unnin í samstarfi við alþjóðlegu stofnunina Institute for Healthcare Improvement. Liðlega 300 spítalar hafa til þessa tekið þátt.
Góða helgi
Páll Mathíasson