Líknardeild Landspítala Kópavogi heldur í ár upp á 20 ára starfsafmæli sitt en hún var opnuð 16. apríl 1999 af þáverandi heilbrigðisráðherra, Ingibjörgu Pálmadóttur.
Með tilkomu líknardeildarinnar var mikið heillaspor stigið í þá átt að efla líknarmeðferð á Íslandi þar sem deildin var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi.
Á þessum 20 árum hefur mikil þróun orðið í líknarmeðferð og starfsemi deildarinnar tekið mið af því.
Líknardeildin byrjaði með 8-10 rúm þar sem lengstum voru 8 inniliggjandi sjúklingar. Legurýmum fjölgaði í 12, við bættist 5-daga eining, göngudeildarþjónusta og um tíma var starfrækt dagdeild. Auk þess er HERA sérhæfð líknarheimaþjónusta staðsett á svæði deildarinnar. Líknardeildin hefur því á þessum árum orðið miðstöð þekkingar í líknarþjónustu á Íslandi.
Starfsfólk deildarinnar minnist um þessar mundir tímamótanna með ýmsum hætti. Gefin verða út kynningarmyndbönd ætluð almenningi og fagfólki, ljósmyndir af nánasta umhverfi deildarinnar hafa verið hengdar upp á deildinni og farnar hafa verið námsferðir þar sem starfsfólk hefur tekið þátt í fræðsludögum á Princess Alice Hospice og St. Christopher´s Hospice í London svo fátt eitt sé nefnt.
Starfsfólk deildarinnar mun hér eftir sem hingað til vinna að framþróun í líknarmeðferð á Íslandi þannig að þekking á sviði líknarmeðferðar á Íslandi eflist og vaxi enn frekar í þágu þeirra sem þurfa á slíkri þjónustu eða meðferð að halda.