Kæra samstarfsfólk!I
I.
Það er vor í lofti þótt vafalaust sé eitthvert páskahret í kortunum. Hvað okkur á Landspítala varðar hefur árstíminn litla þýðingu, hér er þjónusta 24 klukkustundir sólarhringsins, alla daga vikunnar, allan ársins hring. Ein mikilvæg leið fyrir okkur öll til að fylgjast með stöðunni á spítalanum, sérstaklega hvað varðar öryggi sjúklinga og starfsmanna, er daglegt stöðumat. Eins og þið vonandi öll þekkið þá tökum við stöðuna á spítalanum sem heild alla daga kl. 11:15. Þetta höfum við nú gert í ríflega þrjú ár með góðum árangri. Við fjöllum um óvænt atvik, öryggi sjúklinga og starfsmanna, hvernig við getum hjálpast að við að þjónusta sjúklingana okkar, flæði, stöðu mála hjá stoðsviðum, mönnun og fleira. Fundurinn tekur aðeins 15 mínútur. Framkvæmdastjórar skipta með sér verkefninu og stýra stöðumatinu ásamt innlagnastjóra með þátttöku deildarstjóra, yfirlækna og annarra sem eru í beinni þjónustu við starfsmenn og sjúklinga. Allir eru velkomnir á stöðumatið til að taka púlsinn og ég hvet ykkur öll til að gera það, hvar sem þið starfið. Eins er unnt að tengjast fundinum á workplace og fylgjast með og nú erum við að skoða möguleika á vefútsendingum.
II.
Líknardeildin okkar í Kópavogi fagnar nú 20 ára afmæli. Það var mikið heillaspor stigið í þjónustu við viðkvæman sjúklingahóp og fjölskyldur þeirra þegar deildin var opnuð á þessum fallega stað við Kópavog. Starfsfólk deildarinnar er sérstaklega helgað þessari mikilvægu starfsemi en einnig á HERA (sérhæfð líknarþjónusta í heimahúsum) sér athvarf á svæðinu. Við höfum því byggt upp miðstöð þekkingar í líknarþjónustu. Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þessu uppbyggingarstarfi og erum við þakklát öllum velunnurum deildarinnar og þar á Oddfellow-hreyfingin sérstakar þakkir skildar. Til hamingju, öll!
III.
Landspítali hefur unnið ötult starf í umhverfismálum eins og margir þekkja og við erum nokkuð upp með okkur yfir því að hafa ítrekað verið tekin sem dæmi um fyrirmyndarspítala í þessu tilliti á erlendum vettvangi. Við höldum ótrauð áfram, höfum auðvitað sett okkur loftslagsstefnu og gerum hvað við getum til að draga úr umhverfisáhrifum af þeirri miklu starfssemi sem hér fer fram. Við sem einstaklingar getum auðvitað lagt okkar af mörkum og ég minni því alla á samgöngusamninginn en þar er sérstaklega umbunað fyrir vistvænan samgöngumáta. Ég má því til með að minna á strætókortin sem standa okkur starfsfólki Landspítala til boða á sérkjörum. Allir með strætó!
IV.
Að lokum, vegna umfjöllunar í fjölmiðlum um liðskiptaaðgerðir undanfarið þá er rétt að hnykkja á nokkrum atriðum. Það er í höndum ríkisvaldsins að ákvarða fjármagn til heilbrigðisþjónustunnar og í sameiningu er verkefnum forgangsraðað. Mikilvægt er, sérstaklega í ljósi smæðar íslensks heilbrigðiskerfis, að þegar ákvarðanir eru teknar um einstaka verkefni sé horft til áhrifa þeirra á heilbrigðiskerfið allt, aðra sjúklingahópa og skattgreiðendur.
Fyrir rúmum þremur árum tóku stjórnvöld þá ákvörðun að auka sérstaklega við fjármögnun tiltekinna aðgerða, þ.m.t. liðskiptaaðgerða, og fól Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi verkefnið. Ríkisvaldið ákvað hversu margar viðbótaraðgerðir skyldu gerðar og hafa stofnanirnar sem verkefnið tóku að sér sinnt þeim af krafti. Tilteknu fjármagni var varið til verkefnisins, það hefur verið nýtt og Landspítali eins og hin sjúkrahúsin hafa sinnt verkefninu eins og um var samið. Það er því ekki svo að hjá garði liggi ónýtt fjármagn eða að sjúkrahúsunum hafi ekki tekist að sinna verkefninu eins og þeim var ætlað. Þess má geta að samningurinn gerir ráð fyrir umtalsvert lægri meðalkostnaði per aðgerð en fram hefur komið að einstaklingum standi til boða að greiða úr eigin vasa hjá einkaaðila hérlendis.
Fyrir liggur, að mati Embættis landlæknis, að þörfin sé meiri en átakið gerði ráð fyrir og fari vaxandi. Landspítali vinnur stöðugt að umbótum á þessu ferli og þar þarf til dæmis að skoða frekar einföldun biðlista og undirbúning sjúklinga fyrir aðgerðir, m.a. er unnið að tilraunaverkefni á þessu sviði með Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ákveði stjórnvöld að ráðast í frekara átak gegn biðlistum þá lýsir Landspítali sig tilbúinn til að taka þátt í því verkefni til að efla þessa mikilvægu starfsemi.
Ísland er lítið land og það er álit heilbrigðisráðherra, Embættis landlæknis sem og Landspítala að mikilvægt sé að sérhæfð þjónusta, svo sem bæklunarskurðlækningar, sé ekki dreifð um of á litlar einingar á sama svæði. Þetta er afar mikilvægt til að viðhalda þjálfun starfsfólks og tryggja getu spítalans til að gegna mikilvægu hlutverki sínu í öryggisneti landsins. sem og kennsluhlutverki.
Margítrekað hefur komið fram að sá vandi sem að spítalanum snýr vegna þeirra einstaklinga sem ekki geta útskrifast, þar sem þeir bíða annarra úrræða, dregur úr getu hans til sinna sínu lögskipaða hlutverki - sem er að veita háþróaða meðferð, hjúkrun og lækningar til sjúklinga sem sannarlega þurfa flókna meðferð. Lausnin við þessu er ekki að draga úr getu spítalans til að sinna sínu kjarnahlutverki og færa út af stofnuninni flókin verkefni. Lausnin er sú að byggja upp þau stuðnings- og búsetuúrræði sem fólk bíður eftir. Stjórnvöld hafa enda brugðist við með skynsamlegum hætti og stendur nú yfir öflug uppbygging hjúkrunarheimila auk þess sem nýtt sjúkrahótel verður opnað á næstu vikum sem enn eykur á slagkraft spítalans.
Það er forgangsmál okkar allra að fulllnýta getu opinberra stofnana og þeirra fjárfestinga sem ríkið hefur þegar ráðist þar í til að mæta þörfum þeirra sjúklinga sem sannarlega þjást í bið sinni eftir viðtali og aðgerð í öruggu umhverfi.
Gleðilega páska!
Páll Matthíasson