Kvennadeild Rauða krossins í Reykjavík hefur verið rausnarleg í gjöfum til öldrunarlækningadeilda Landspítala á undanförnum árum og var það enn árið 2018. Fyrir styrki frá deildinni hefur verið hægt að kaupa margs konar búnað til lækninga, hjúkrunar eða endurhæfingar.
Árið 2013 var gerður samningur til tveggja ára milli deildarinnar og Landspítala um verkefni sem varða stuðning við öldrunarlækningadeildir spítalans. Samningurinn hefur síðan verið framlengdur frá ári til árs og er markmið hans að bæta aðbúnað aldraðra á Landspítala. Stuðningurinn felst fyrst og fremst í því að festa kaup á búnaði til lækninga, hjúkrunar eða endurhæfingar aldraðra. Kvennadeildin hefur verið með úthlutanir á hverju ári frá undirritun samningsins. Árið 2018 var engin undantekning og gáfu konurnar hjálpar- og lækningatæki að andvirði rúmlega 3 milljóna króna.
Hjálpartækin sem kvennadeildin gaf að þessu sinni munu nýtast vel öllum deildum Landakots og einnig fara hjálpartæki til Vífilsstaða og á bráðaöldrunarlækningadeild B4 í Fossvogi.
Í þakklætisskyni og til heiðurs konum í kvennadeild Rauða krossins í Reykjavík var boðið til kaffisamsætis á Landakoti þriðjudaginn 16. apríl 2019 og formlega tekið við þeirra höfðinglegu gjöfum.
Gjafir frá Kvennadeild Rauða Krossins í Reykjavík til öldrunardeilda Landspítala á afmælisárinu 2018 voru þessar:
3 stk loftdýna með mótor
2 kúluábreiður
4 skoðunarbekkir
4 hægindastólar
5 háar göngugrindur