Kæra samstarfsfólk!
í vikunni sóttu tæplega 200 stjórnendur á Landspítala öflugan stjórnendafund. Við eigum þessa fundi tvisvar á ári, að vori og hausti. Það er á þessum fundum sem við gjarnan kynnum nýjungar og hugmyndir sem framundan eru og oftar en ekki er það þarna sem frábærar hugmyndir koma fram sem við getum unnið að í sameiningu. Ég þykist vita að slíkar hugmyndir hafi oftar en ekki orðið til í samtali starfsfólks og stjórnenda og það er einmitt þannig sem þetta á að vera. Eitt slíkra verkefna eru þjónustusamningar / þróun stoðþjónustu sem við höfum unnið öturlega að síðustu mánuði og nú fer að sjá til lands í því verkefni. Á fundinum kynnti ég einnig þá fyrirætlan að ráðast í breytingar á skipuriti spítalans. Að stofni til hefur skipuritið okkar verið óbreytt í 10 ár og sannarlega kominn tími til að endurskoða það. Skipuritið þjónaði tilgangi sínum ágætlega í kjölfar hrunsins en nú munum við endurstilla fókusinn og stefnum að því að draga úr þeim sílóum sem eðli máls samkvæmt myndast oft í starfsemi stofnana og fyrirtækja. Það þarf að horfa til þess að verkefni okkar og þarfir sjúklinga hafa tekið miklum breytingum undanfarinn áratug. Skipulag okkar þarf að taka mið af því og það er einnig hluti af þeim undirbúningi sem flutningur starfseminnar í nýjan meðferðarkjarna - eftir örfá ár - krefst af okkur.
Það urðu mikil tímamót í vikunni þegar nýja sjúkrahótelið tók við fyrstu gestum okkar við Hringbrautina. Við gerum auðvitað ráð fyrir að starfsemin slípist til á næstu vikum og mánuðum en við heyrum nú þegar frá sjúklingum og aðstandendum sem eru glaðir og ánægðir með breytinguna. Það er öflugt teymi starfsfólks sem rekur hótelið undir styrkri stjórn Sólrúnar Rúnarsdóttur, deildarstjóra hótelsins. Sjá frétt með myndskeiði.
Í gær var ég viðstaddur hátíðardagskrá í ráðhúsi Árósa í tilefni af 50 ára afmæli Scandiatransplant. Scandiatransplant er samnorrænt samstarf um líffæraígræðslur sem hófst í Árósum árið 1969 en Ísland hefur tekið þátt í því með virkum hætti síðan á 10. áratug síðustu aldar. Mikilvægi þessa samstarfs felst í því að með samstarfi aukast líkurnar á því að fólk sem bíður lífsbjargar í formi líffæragjafar fái þau líffæri sem best henta. Tugir þúsunda einstaklinga á Norðurlöndum eiga þessu samstarfi líf sitt að þakka. Eins og vel var kynnt í dagskránni í gær þá veltur árangur samstarfsins á óeigingjörnum líffæragjöfum. Þetta eru skiljanlega erfið og viðkvæm mál vegna þess að líffæragjafi er deyjandi einstaklingur. Því er mikilvægt að hafa samtal um þessi viðkvæmu mál við ástvini svo aðstandendur þekki vilja sinna nánustu. Steinunn Rósa Einarsdóttir, móðir Skarphéðins Andra Kristjánssonar, 18 ára pilts sem gaf líffæri sín árið 2015 eftir hörmulegt bílslys, ávarpaði samkomuna í Árósum. Hún hefur áður af hugrekki og einlægni lýst erfiðri reynslu fjölskyldunnar í íslenskum fjölmiðlum. Steinunn ræddi á hjartnæman hátt hvernig fjölskyldan hafði rætt þessi mál fyrir slysið og lýsti hversu miklu máli skipti fyrir þá sem eftir lifa að hafa getað orðið að þessum yfirlýsta vilja sonar sín. Þannig varð missir fjölskyldunnar lífgjöf annarra en hver líffæragjafi bjargar lífi tveggja til þriggja líffæraþega. - Það er gott að lögum á Íslandi hefur verið breytt þannig að nú er gert ráð fyrir ætluðu samþykki. Eftir sem áður er þó mikilvægt að fólk þekki afstöðu ættingja sinna.
Mig langar til að minna ykkur öll á ársfund spítalans sem haldinn verður eftir rétta viku, föstudaginn 17. maí. Yfirskrift fundarins er „Sjúkrahús allra landsmanna“ en það er Landspítali svo sannarlega, þjóðarsjúkrahús. Hins vegar erum við ekki eyland heldur hluti af öflugri keðju heilbrigðisþjónustu um land allt og eigum í sívaxandi samstarfi innan hennar. Það hefur verið ánægjuleg þróun og um það munum við fjalla og raunar fagna á ársfundinum. Fleira spennandi er á dagskrá fundarins og ég hvet ykkur öll til að mæta og skrá ykkur hér.
Að lokum við ég óska okkar ágætu hjúkrunarfræðingum til hamingju með frábæra viku hjúkrunar og auðvitað alþjóðlegan dag hjúkrunarfræðinga, 12. maí næstkomandi. Dagurinn er haldinn hátíðlegur á afmælisdegi Florence Nightingale, hjúkrunarfræðings og tölfræðings. Við þekkjum öll hinn alvarlega skort á hjúkrunarfræðingum sem er ekki bara landlægur heldur nánast heimsfaraldur og er gríðarlegt áhyggjuefni. Því hefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin ákveðið að tileinka árið 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum, heiðra þannig 200 ára ártíð Florence Nightingale og leggja áherslu á störf þessara mikilvægu stétta. Framundan er verk að vinna ef við ætlum að tryggja framtíð hjúkrunar í landinu og þar eru allir til kallaðir. Það er sennilega ágætt, við það verkefni, að hafa í huga þessi orð Florence Nightingale: „I attribute my success to this - I never gave or took any excuse.“
Góða helgi!
Páll Matthíasson