Kæru ársfundargestir!
Verið velkomin til þessa ársfundar Landspítala, þar sem árið 2018 er gert upp. Þetta er 19. starfsár Landspítala, hins öfluga sjúkrahúss sem varð til við sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur. Það er gott að sjá svona marga velunnara spítalans hér samankomna í dag.
Það er eðlilegt að spyrja hvernig staðan sé á spítalanum, hvernig árið 2018 hafi leikið okkur. Og svarið er: staðan er góð. En áskoranir eru fjölmargar.
Um vanda spítalans má segja að barnið vex en brókin ekki. Verkefni spítalans aukast stöðugt. Íslendingum hefur á síðasta áratug fjölgað um 40.000 og ferðafólki úr 400.000 í 2.000.000 á sama tíma. Álagið af þessari fjölgun er svo enn meira en ætla mætti, því ferðamenn eru eðli máls samkvæmt á ferð og flugi og slasa sig meira og oftar en aðrir, eins og best sást í hóprútuslysi í gærkvöldi sem fór þó betur en á horfði. Og fjölgun Íslendinga er ekki síst í hópi okkar elstu borgara – en það eru einmitt helstu viðskiptavinir heilbrigðisþjónustunnar. Sagt hefur verið að fyrir hvert það prósent sem eldri en 85 ára einstaklingum fjölgi, þá aukist álag á sjúkrahúsið um 3%. Sú uppbygging á hjúkrunarrýmum, sem er nú sem betur fer í burðarliðnum á höfuðborgarsvæðinu, kemur svo heldur seint. Fyrir vikið er á hverjum tíma mikill fjöldi einstaklinga liggjandi á spítalanum í bið eftir hjúkrunarrýmum, stundum lengi, eins og ég hef áður rætt endurtekið í ávörpum hér á ársfundi.
Stærsta áskorunin er samt mönnun Landspítala, sérstaklega hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Sá skortur á mannafla leiðir til þess að nærri 40 rúm á spítalanum eða sem nemur tveimur legudeildum eru í dag lokuð og eina leiðin til að manna þá þjónustu sem við verðum að veita er oft sú að borga útkeyrðu starfsfólki yfirvinnu fyrir að bæta á sig aukavöktum. – Þarna er þörf á risaátaki heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda – og fjármálaráðuneytis – til að byggja upp mannafla til framtíðar. Þessi skortur á mannafla er líka aðalástæða þess að rekstur spítalans er mjög erfiður.
Í dag erum við hér hins vegar til að fagna því sem vel er gert. Það gerum við meðal annars með því að heiðra framúrskarandi starfsfólk en heiðranirnar eru minn uppáhaldsdagskrárliður á hverjum ársfundi. Önnur leið til að fagna er sú nýjung síðan í fyrra að fagna sérstaklega heiðursvísindamanni Landspítala, sem að þessu sinni er Helga Jónsdóttir, hjúkrunarfræðingur og prófessor. Jafnframt fögnum við ungum vísindamanni Landspítala 2019, Þóri Einarssyni Long, sérnámslækni.
En við fögnum líka því sem vel er gert með því að draga fram nýjungar í þjónustu. Og af þeim er nóg. Á miðvikudaginn var héldum við umbótaráðstefnu spítalans, þar sem umbótaverkefni voru kynnt, í erindum og veggspjöldum og helstu verkefni sem eru í gangi í augnablikinu fara að nálgast hundraðið. Hér á ársfundinum ætlum við hins vegar að segja frá tveimur meiri háttar nýjungum í þjónustu spítalans, nýjungum sem í raun fleyta heilbrigðisþjónustu landsins fram um áratugi.
Fyrra dæmið sem hér verður kynnt á eftir er jáeindaskanninn. Fyrir stórhug og framsýni Kára Stefánssonar og Íslenskrar erfðagreiningar þá færist greining krabbameina á Íslandi loks inn í nútímann og sjúklingar losna við óþægilegar, hættulegar og stundum ótækar ferðir til útlanda í jáeindaskanna. Það öfluga starfsfólk sem hefur byggt upp þessa þjónustu er einstakt og á heiður skilinn.
Seinna dæmið um framúrskarandi þróun í þjónustu er nýtt verklag við heilaslag. – Þessi þjónusta hefur mikla þýðingu fyrir mig og ég ætla að leyfa mér að vera persónulegur í smástund.
Móðir mín var hlý kona og hæfileikaríkur, já einstakur kennari, en hún kenndi í Hagaskóla í Reykjavík í aldarþriðjung. – Í maí árið 1999, þegar hún var 58 ára gömul fékk hún heilaslag, lamaðist öðru megin og missti málið að mestu. Þrátt fyrir einbeittan vilja til endurhæfingar og einstaka hjálp á Grensási þá náði hún aldrei nema takmarkaðri færni á ný. Hún var örkumla og þurfti stöðuga hjúkrun þangað til hún lést í maí árið 2008, 68 ára gömul. Að þurfa að horfa upp á einhvern manni nákominn hljóta slíkt reiðarslag er erfitt, eins og þið ábyggilega þekkið sum hér.
Hvers vegna nefni ég þetta hér? Jú, vegna þess, að með nýju verklagi við heilaslag með hröðum viðbrögðum, markvissri lyfjameðferð og því sem mestu hefði skipt fyrir móður mína, æðaþræðingu þar sem blóðtappinn er fjarlægður úr heilaæð, hefði líklega verið hægt að bjarga móður minni og snúa við þeirri skemmd sem súrefnisskortur vegna blóðtappa í heila olli. Hún hefði getað kennt áfram í 10 eða 12 ár, hefði séð barnabörnin vaxa úr grasi, sæti kannski hér stolt úti í sal í dag. - Þetta er mér sífellt þörf áminning um að það er ekki hægt að setja verðmiða á þau lífsgæði sem góð heilsa er og um mikilvægi þess að gefast aldrei upp heldur leitast sífellt við að taka upp nýjar og betri meðferðir.
Já, spítalinn gegnir mikilvægu hlutverki í heilbrigðiskerfi þjóðarinnar, bakhjarl vissulega, en samt ekki upphaf og endir alls, heldur mikilvægur möskvi í því sem ég vil kalla þjónustunet heilbrigðisþjónustunnar. Byrðar eru léttari þegar þeim er deilt og hlutverk kerfisins alls er að veita sjúklingum sem öruggasta þjónustu, hvar sem þeir eru. Til þess að tryggja það þá þurfa mismunandi þættir heilbrigðiskerfisins að vinna saman. Því miður þekkjum við allt of mörg dæmi um sjúklinga sem veltast á milli kerfa og sem fá fyrir vikið ekki þjónustu við hæfi. Gott dæmi um þetta er á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, þar sem mat okkar var til skamms tíma það að einn af hverjum sjö sjúklingum sem þangað kæmu hefðu getað fengið þjónustu á sinni heilsugæslustöð, með minni tilkostnaði og fyrirhöfn.
Þetta er breytt – samvinna hefur verið sett í forgang með þeim árangri að mun fleiri sjúklingar leita nú fyrst í heilsugæsluna – fólk fær þjónustu við hæfi. Það er meiri háttar áskorun, en líka meiri háttar öryggis-, þjónustu- og kostnaðarmál - að þjónustuþörf sjúklinga og þjónusta passi saman. Stundum er verið að nýta óþarflega dýra þjónustu á einföld vandamál – en stundum er líka verið að nota óhentug úrræði. Í vaxandi mæli eru verkefni heilbrigðisþjónustunnar stuðningur við fólk með langvinna sjúkdóma og þeim stuðningi er oft betur fyrir komið í heilsugæslunni – og forvarnir eru þar oft miklu betur komnar.
En Landspítali er þjóðarsjúkrahús, ekki aðeins sjúkrahús höfuðborgarsvæðisins og í vaxandi mæli viljum við nota fjarlækningar og skýra verkaskiptingu á milli stofnana, auk reglulegs, þétts samstarfs við heilbrigðisstofnanir út um landið, til að tryggja það að landsmenn allir njóti sem bestrar þjónustu. Samstarfið við Heilbrigðisstofnun Austurlands er gott dæmi um slíkt, þar verður hér á eftir fjallað um samstarf HSA við þvagfæraskurðdeild Landspítala, sem dæmi um það hvernig hægt er að veita mikilvæga sérhæfða læknisþjónustu utan Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.
Síðan er önnur þjónusta sem er almennari, þyrfti alltaf að vera til staðar í öllum landshlutum, en þar sem útsjónarsemi og samstarf þarf til að það takist. Þar vil ég nefna sem dæmi geðheilbrigðisþjónustu, en Landspítali og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða eru að þróa samstarf, þar sem geðheilsuteymi á Ísafirði er styrkt með tengiliðum og bakhjarlsteymi á geðsviði Landspítala og til þess notuð upplýsingatækni og fjarfundabúnaður. Miklu fleiri dæmi mætti nefna um árangursríkt og vaxandi samstarf opinberu heilbrigðisstofnananna níu. Ég vil hins vegar svona undir lok erindis míns nefna annað skref sem er gríðarmikilvægt í þjónustu við sjúklinga, ekki síst á landsbyggðinni – og það er sjúkrahótelið nýja á Landspítalalóð.
Sjúkrahótelið opnaði mánudaginn 6. maí, fyrir 10 dögum síðan. Nú þegar hefur það sannað gildi sitt sem gríðarmikilvægur þáttur í þjónustu við sjúklinga á Íslandi. Nú eru á hótelinu meðal annars fjölskylda utan af landi, með nokkur börn undir 10 ára aldri. Móðirin veiktist af krabbameini og þarf mikla meðferð á göngudeild krabbameins á Landspítala. Þau eiga enga að á höfuðborgarsvæðinu og það munar gríðarlegu að eiginmaðurinn og börnin geta dvalið með móðurinni í fjölskylduherbergjum á sjúkrahótelinu þær vikur sem þessi bráðameðferð stendur yfir. Annað dæmi er kona á síðasta hluta áhættumeðgöngu, með lítil börn, utan af landi, sem dvelst nú með eiginmanni og börnum á sjúkrahótelinu og bíður þess að geta fætt í öryggi kvennadeildar Landspítala. Síðan eru fjölmörg dæmi um fólk sem getur útskrifast fyrr af sjúkrahúsinu yfir á sjúkrahótelið og greitt þannig fyrir því að aðrir komist inn á spítalann. Aftur, þá snýst þetta um að þjónustan sem boðið er upp á hæfi þjónustuþörfinni.
Ég hef ekkert rætt hér brýnasta öryggismálið – að byggja upp meðferðarkjarna og aðrar nútímabyggingar hér við Hringbraut. Þar segja myndir meira en þúsund orð, þannig að ég ætla að spila hér myndskeið.
Það eru að vanda ærin verkefni framundan – en við á Landspítala höldum ótrauð áfram að byggja upp framúrskarandi sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, að byggja upp brýr til annarra heilbrigðisstofnana og leggja okkar að mörkum í að skapa þjónustunet fyrir alla landsmenn.
Á móti, þá verður að tryggja okkur viðunandi rekstrarumhverfi, og það verður best gert með því að taka af okkur byrðar sem aðrir sinna betur, þá einkum í hjúkrunarþjónustu aldraðra en einnig með því að gera allt sem hægt er til að hjálpa okkur að þjálfa, laða að og halda í öflugt fagfólk.
Takk fyrir!