Kæra samstarfsfólk!
Landspítali hefur undanfarin átta ár verið á markvissri umbóta- og öryggisvegferð drifinn áfram af öflugu teymi á vegum framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar sem og verkefnastofu, með fulltingi framkvæmdastjórnar. Á þriðja þúsund starfsfólks hefur tekið beinan þátt í að þróa umbótastarf spítalans og þessi vinna hefur vakið athygli jafnt innanlands sem erlendis. Hið þrefalda markmið gæðastarfs er að bæta gæði þeirrar þjónustu sem sjúklingurinn fær, að bæta umönnunina og að draga úr sóun í þjónustunni. Árangurinn er ekki alltaf auðvelt að mæla en öruggari þjónusta, ánægðari sjúklingar og betur reknir spítalar eru afrakstur öflugs umbótastarfs.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga nú þegar við þurfum sem aldrei fyrr að glíma við áskoranir í rekstri spítalans. Einstaklega skýrt dæmi um þann árangur sem ná má með markvissum umbótum má sjá í sumardvalarborginni Brighton við Ermasund. Western Sussex Hospitals NHS Foundation Trust var samstarf þriggja spítala og þjónaði 450.000 einstaklingum, með 7.000 starfsmönnum og 70 milljarða veltu. Spítalinn fór úr því á nokkrum árum að vera í meðallagi í gæðum skv. Ensku gæðastofnuninni (Care Quality Comomission, CQC) yfir í að fá hæstu einkunn á sama tíma og reksturinn snerist úr tapi í afgang. Í kjölfarið var Western Sussex beðið um að taka yfir Brighton and Sussex University Hospitals Trust, mun stærri nágrannaspítala sem hafði árum saman verið í gífurlegum vanda, svo miklum reyndar að heilbrigðisyfirvöld í Englandi höfðu hugleitt að loka stofnuninni. Á aðeins 18 mánuðum eftir að Western Sussex tóku yfir með markvissri beitingu umbótastarfs og áherslu á öryggi, gæði og bestu nýtingu ferla hefur Brighton háskólaspítalinn snúist í mati CQC úr einkunninni „failed“ á flestum sviðum yfir í „good“ og „outstanding“ á sama tíma og reksturinn hefur snúist við. Skýrara dæmi er erfitt að hugsa sér um gagnsemi umbótastarfs og um mikilvægi þess að hafa skýran fókus á sjúklinginn.
Í gær birti Embætti landlæknis skýrslu um árangurinn af biðlistaátaki stjórnvalda vegna liðskiptaaðgerða. Niðurstaðan er sú að biðlisti eftir aðgerð er enn of langur. Ástæðan sé sú að eftirspurn eftir aðgerðum hefur aukist meira en gert var ráð fyrir í upphafi. Átakið skilaði hins vegar þeirri fjölgun á liðskiptaaðgerðum sem stefnt var að, með þeirri undantekningu þó að nokkuð (9%) vantaði upp á að Landspítali lyki þeim aðgerðum sem fyrirhugað var. Skýrsla landlæknis rekur síðan skýrt ástæður þess að Landspítali náði ekki markmiði sínu en útskriftavandi vegna skorts á hjúkrunarrýmum og lokuð rúm vegna skorts á starfsfólki við hjúkrun eru skýringin.
Við munum með heilbrigðisyfirvöldum vinna að því á næstu mánuðum og árum að tryggja að allir sem þurfa liðskiptaaðgerð fái hana án óeðlilegra tafa. Aukinn fjöldi hjúkrunarrýma og fleira og betur stutt hjúkrunarstarfsfólk eru þar augljós forgangsverkefni sem munu hjálpa. Jafnframt þarf að skoða ábendingar fyrir liðskiptaaðgerðum, skýra forgangsröðun á biðlista og leiðir til að nýta tímann fram að aðgerð markvisst til að undirbúa fólk; ekki endurhæfing heldur „forhæfing“. Í slíkum forvörnum og betri undirbúningi felst meira öryggi og meiri þátttaka sjúklinga.
Við getum verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð við mjög þröngar aðstæður en erum enn og aftur minnt á að mikilvægt er að öflugur háskólaspítali fáist fyrst og síðast við kjarnastarfsemina; flókna sérhæfða starfsemi. Þannig leysum við enn meiri krafta úr læðingi, þannig þjónum við landsmönnum best og þannig nýtum við fjárfestingu samfélagsins í fólki og búnaði best.
Góða helgi!
Páll Matthíasson