Kæra samstarfsfólk!
Sumarið byrjar með glampandi sól – og miklu annríki. Í því álagi sem verið hefur undanfarið höfum við þegar fundið fyrir þeirri miklu hjálp sem starfsemi spítalans fær af nýja sjúkrahótelinu. Þrátt fyrir að aðeins um þriðjungur af herbergjum hótelsins sé kominn í notkun, þá munar sannarlega um þessa þjónustu við sjúklinga. Sjúklingum er bæði gert mögulegt að útskrifast fyrr af legudeildum spítalans en það sem meiru skiptir, sérstaklega fyrir fólk af landsbyggðinni, er möguleiki sjúklinga og aðstandenda þeirra til að sækja heilbrigðisþjónustu frá sjúkrahótelinu, í öruggu og aðlaðandi umhverfi.
Í þessu prýðilega veðri sem við á suðvesturhorninu njótum þessar vikurnar vilja margir hjóla eða ganga til vinnu. Á sama tíma og ég vil minna á samgöngusamninginn sem starfsfólki stendur til boða þá er líka rétt að fagna því að nýtt hjólaskýli var opnað í vikunni. Það er staðsett á Hringbrautarsvæðinu, norðan við sjúkrahótelið.
Undanfarin ár hefur Landspítali tekið þátt í spurningavagni Gallup um viðhorf almennings til stofnana. Í vikunni fengum við í hús niðurstöður ársins 2019. Þær eru ánægjulegar. Traust almennings til Landspítala mælist nú 80%, hefur vaxið um 7% á milli ára og við erum á meðal efstu stofnana, ásamt Landhelgisgæslunni, Embætti forseta Íslands og Lögreglunni. Jafnframt er ánægjulegt að sjá (þótt enn sé verk að vinna) að 74% aðspurðra telja að Landspítali veiti góða eða mjög góða þjónustu og önnur 14% eru hlutlaus.
Ég vona að þið eigið góða helgi, hvort heldur þið sinnið verkefnum á spítalanum eða njótið veðurblíðunnar!
Páll Matthíasson