Eins og ég nefndi í pistli í gær um alvarleg atvik er öryggis- og umbótavegferð Landspítala afar mikilvæg. Öryggi sjúklinga er lykilatriði í meðferð þeirra í því hraða og afar flókna umhverfi sem nútíma spítalaþjónusta er. Ánægjulegast er þegar vel tekst til gagnvart sjúklingum okkar og eins átakanlegt þegar meðferð fer úrskeiðis.
Bestum árangri höfum við náð þegar við einblínum á skilvirkni, drögum úr sóun og umfram allt þegar við bætum gæði þjónustunnar. Með þessari aðferðafræði hefur okkur einnig tekist að draga úr kostnaði á ýmsum sviðum og það er mikilvægt í því umhverfi sem við störfum. Það er gleðilegt að sjá að vinna okkar vekur athygli hérlendis sem erlendis. Sem dæmi má nefna náið samstarf sem við höfum átt undanfarin ár við við IHI (Institute for Healthcare Improvement) og á fundi sem haldinn var hér á Íslandi nýlega gafst tækifæri til að kynna okkar vegferð sérstaklega og er sagt í meðfylgjandi myndskeiði. Þá var Landspítali nýlega valinn af KPMG sem eitt af fremstu sjúkrahúsum í heimi í öryggis- og umbótastarfi, sbr. myndskeið.
Þetta er gott veganesti inn í verkefni næstu vikna og missera þegar þrengir að í rekstri spítalans eins og fleiri stofnana. Við höfum undanfarin ár séð framlög til heilbrigðisþjónustunnar vaxa, bæði innan spítalans og utan. Sérstaklega er mikilvægt að stjórnvöld leggja áherslu á uppbyggingu heilsugæslu og hjúkrunarheimila en sú áhersla mun hafa jákvæð áhrif á rekstur Landspítala. Hins vegar er ljóst að fjárframlög til spítalans eru ekki í samræmi við þá hratt vaxandi þjónustuþörf sem við þurfum að mæta. Við höfum því hafið undirbúning að aðgerðum í því augnamiði að draga úr rekstrarkostnaði og horfum sérstaklega til tækifæra sem liggja í öflugu umbótastarfi spítalans og annarra leiða að sama markmiði. Leiðarljós í slíkri vinnu sem og annarri hér á spítalanum er að sjúklingar eru í öndvegi og því sjáum við fyrir okkur að aðhaldsaðgerðir verði mestar í öðrum rekstrarþáttum en beinni klínískri þjónustu. Einnig eru viss tækifæri til hagræðingar fólgin í endurröðun innan skipurits spítalans. Þessi vinna er þegar hafin af hálfu framkvæmdastjórnar og mun halda áfram í sumar og verða fleiri kallaðir að borðinu, eftir atvikum. Ljóst er að við þurfum strax að auka allt kostnaðaraðhald, við hefjum ekki ný verkefni nema að fjármögnun sé tryggð, drögum úr ferðakostnaði, yfirvinnu þarf sérstaklega að taka til skoðunar og við ráðum ekki í nýjar stöður nema þar sem brýn klínísk þörf krefur. Þá er unnið er að því að tryggja að ábyrgð og ákvarðanir fari saman og að skýr fjármálaáætlun styðji við reksturinn. Er þá fátt eitt talið en nánari útfærsla bíður ágústmánaðar.
Nú þegar júnímánuður er að baki tekur við það tímabil þegar flestir fastir starfsmenn njóta sumarleyfa. Samhliða rekum við bráðaþjónustu spítalans af fullum krafti með fulltingi fólks í sumarafleysingum en lokum einnig rúmum. Ég vil bjóða allt það fólk velkomið til starfa hjá okkur hér á Landspítala og vona að þið eigið gott sumar með okkur, þrátt fyrir að ég viti að álagið getur verið mikið.
Landspítali er spennandi vinnustaður - sá stærsti á landinu, öflugasti veitandi heilbrigðisþjónustu á landinu og framsækinn í nýsköpun og umbótum. Notið tækifærið og kynnið ykkur þetta.
Við starfsfólk í fríi eða á leið í frí vil ég segja þetta: Njótið hvíldar í faðmi fjölskyldu og vina og hlaðið batteríin, þið eigið það skilið!
Páll Matthíasson