Kæra samstarfsfólk!
Nú síðsumars er að vanda í mörg horn að líta á Landspítala. Starfsfólk snýr til baka úr sumarleyfum og afleysingafólk til annarra verkefna – ég vona að fyrrnefndi hópurinn hafi notið hins góða sumars hér á suðvesturhorninu og hinum þakka ég fyrir að standa vaktina. Við höfum að vanda sinnt allri bráðri starfsemi nú í sumar en nú næstu daga og vikur tekur við regluleg starfsemi og við keyrum spítalann á fullt.
Samhliða þessu eru önnur ærin verkefni framundan. Við stöndum frammi fyrir stórum áskorunum í heilbrigðisþjónustunni almennt og rekstri sjúkrahúsa, eins og aðrar Vesturlandaþjóðir. Þjóðin eldist blessunarlega en því fylgir mikil aukning á langvinnum sjúkdómum. Framfarir í læknavísindum hafa leitt til fjölgunar meðferðarúrræða og aukinna væntinga almennings. Ferðamenn eru svo hér á hverri þúfu og veikjast og slasast eins og aðrir. Allt þetta þekkið þið og mikilvægt er að við aðlögum okkur þessum veruleika, nú þegar við sömuleiðis vinnum okkur inn í nýtt vinnuumhverfi í nýjum meðferðarkjarna.
Við þurfum að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að okkar meginverkefnum og þar af leiðandi þörfum samfélagsins um leið og við hagræðum í stjórnunarþætti spítalans. Þetta eru megindrifkraftarnir í þeim skipuritsbreytingum sem standa fyrir dyrum og þið mörg hafið haft spurnir af. Vinna við þetta hefur staðið yfir frá því í vor og stærstan hluta sumarsins. Tilgangur breytinganna er að ná betri heildarsýn á flæði og þjónustu við sjúklinga með því að draga úr sílóum og samhæfa starfsemina þvert á núverandi svið. Framkvæmdastjórum verður fækkað verulega og lykilstjórnendur verða nær klíníkinni. Við viljum halda áfram þeirri vegferð að auka þjónustu stoðsviða og ánægju klínískra starfsmanna með hana. Jafnframt þurfum við að horfa til þeirrar staðreyndar að kostnaður hjá okkur hefur aukist. Besta leiðin til að ná stjórn á kostnaði, án þess að draga úr þjónustu við sjúklinga, er sú að straumlínulaga þjónustuna og draga þannig úr sóun og kostnaði.
Ég hef boðað fund með stjórnendum spítalans fimmtudaginn 15. ágúst þar sem ég mun kynna drög að nýju skipuriti. Í kjölfar ábendinga stjórnenda og fagráða verður endanleg mynd nýs skipurits ljós og stefnt er að því að kynna það í lok ágúst. Í september verða nýir framkvæmdastjórar ráðnir og miðað við að nýtt skipurit verði formlega virkt 1. október næstkomandi. Þó má búast við að yfirfærslutímabil vegna nýs skipulags standi yfir til næsta vors.
Breytingar taka alltaf á enda felst í ferlinu ákveðin óvissa sem getur valdið misskilningi og jafnvel kvíða hjá starfsfólki. Mig langar að leggja mig fram um að draga sem mest úr óþarfa misskilningi og kvíða sem kann að skapast og bið ég ykkur því að senda mér ábendingar um það sem vel verður gert í ferlinu og það sem betur mætti fara. Þetta er ekki vegferð sem ég fer einn í heldur geri ég ráð fyrir stuðningi og samstarfi við ykkur öll.
Skipurit er í eðli sínu verkfæri sem þarf að þróast í takt við framtíðarsýn, tækifæri, umhverfi og starfsemi spítalans. Ég mun leggja mig fram um að veita upplýsingar í pistlum og á öðrum vettvangi og vonast til að við getum í sameiningu bætt þjónustu spítalans fyrir sjúklinga og gert hann að enn betri vinnustað fyrir starfsmenn og nema.
Góða helgi!
Páll Matthíasson