Kæra samstarfsfólk!
Í síðustu viku kynnti ég drög að skipuritsbreytingum. Þær eru vissulega kynntar í skugga fjárhagsstöðu Landspítala en eru þó ekki sérstaklega til komnar vegna hennar. Skipurit er þó sannarlega tæki til breytinga á skipulagi og mikilvægt í því tilliti gagnvart breytingum og þróun í starfseminni. Segja má að um tvær bylgjur breytinga á skipuriti sé að ræða; annars vegar þá sem við sjáum nú strax í október þegar ný og fámennari framkvæmdastjórn tekur við störfum og sú síðari þegar forstöðumenn, lykilstjórnendur í framlínu, taka til starfa síðar á árinu. Ég hef nú kynnt drögin ýmsum haghöfum svo sem lækna- og hjúkrunarráði, fulltrúum samráðsnefndar og stjórnendum í síðustu viku. Ég bíð enn formlegra umsagna nokkurra en niðurstöður þessarar vinnu og nýtt skipurit fer loks til kynningar í ráðuneyti fyrir ráðherra til staðfestingar, væntanlega á næstu dögum.
Á Landspítala sinnum við gríðarlega mikilvægu starfi við mjög sérstakar aðstæður þar sem helst er vöxtur í kröfum um aukna, hraðari, fullkomnari og betri þjónustu. Það er markmið okkar að mæta þessum óskum og það hefur okkur raunar tekist með eftirtektarverðum árangri, eins og rakið hefur verið víða (sbr. meðfylgjandi myndskeið). Við getum verið afar stolt af árangrinum og ekki hvað síst í því ljósi að þessu náðum við samhliða því að byggja upp starfið eftir að Landspítali þurfti að taka á sig einna hörðustu niðurskurðarkröfuna í kjölfar hrunsins og McKinsey skýrslan sýndi fram á afar hagkvæman rekstur spítalans. Þetta allt skulum við hafa í huga þótt einhverjir kunni að kjósa að horfa í aðrar áttir, nú þegar spjótin beinast að alvarlegri fjárhagsstöðu spítalans. Því staðan er alvarleg, eins og ég tíundaði hér fyrr í sumar og við höfum þegar gripið til aðgerða vegna hennar. Þó er morgunljóst að við munum þurfa að þrengja verulega að í rekstrinum til að ná þeim markmiðum sem ríkisvaldið hefur sett okkur. Það er engum gleðiefni að halda enn af stað í slíkar aðhaldsaðgerðir en hjá því verður ekki komist. Það er okkar hlutverk að sjá til þess að laga þjónustuna að þeim fjárframlögum sem henni eru ætlaðar þótt öll vildum við gjarnan beina sjónum okkar að uppbyggingarstarfi fremur en niðurskurði . Þekkjandi starfið hér á spítalanum og reksturinn annars vegar og hlustandi/lesandi athugasemdir annars staðar hins vegar er það mín bjargfasta niðurstaða að það er sérstaklega mikilvægt fyrir sjúklingana okkar að við sjálf stýrum því verki. Það erum við sem höfum sýnt góðan árangur starfsins hér og það erum líka við sem höfum sýnt fram á góðan árangur af rekstrinum undanfarin ár þó að nú halli bratt undir fæti. Það er margt sem vinnur á móti okkur í þessu verkefni en svo sannarlega erum við ekki ein á báti. Framlög til heilbrigðisþjónustunnar hafa vaxið og þjónusta utan spítala aukist. Vissulega ekki í samræmi við mjög hratt vaxandi þörf en þetta er mjög þýðingarmikið, sérstaklega til framtíðar lítið. Við eigum einnig í ágætu samtali við stjórnvöld um stöðuna og ég mun halda ykkur vandlega upplýstum um hverju fram vindur og langflest ykkar verða kölluð að borðinu með einum eða öðrum hætti.
Eins og alltaf þurfum við að halda mörgum boltum á lofti og bestum árangri náum við ef við einblínum á skilvirkni, drögum úr sóun og náum samhliða að bæta þjónustuna við sjúklinga, sem alltaf eiga að vera í öndvegi. Við þurfum að þétta raðirnar og nú síðastliðinn föstudag fluttu tæplega 300 starfsmenn starfsstöðvar sínar frá fimm stöðum víðsvegar á einn stað, Skaftahlíð 24. Meginhvati þessara breytinga er að við þær losnar rými á Eiríksgötu 5 sem mun nýtast fyrir klíníska þjónustu við sjúklinga á sjálfu Hringbrautarsvæðinu. Þetta mun létta verulegu á húsnæðisþrengslum víða hjá okkur um leið og við þjöppum stoðþjónustunni saman á aðgengilegum stað fyrir allt starfsfólk. Við förum nýjar leiðir í vinnuumhverfinu og nýtum hvern fermetra vel. Til að mynda er enginn, þar með talið ég sjálfur, með ákveðna vinnuaðstöðu eða skrifstofu. Hins vegar eru ýmis næðisrými og afdrep auk bókanlegra fundarherbergja sem henta fjölbreyttum verkefnum. Að sjálfsögðu skiptum við yfir í nánast pappírslaust umhverfi og eflum okkur enn í umhverfisvænum lausnum og leiðum. Ég vil hvetja ykkur til að líta við í Skaftahlíðinni við tækifæri. Húsnæðið er auðvitað öllum starfsmönnum opið, jafnt mötuneyti sem fundarrými. Skutlan okkar góða ekur nú á milli staða svo jafnvel væri ekki úr vegi að eiga „stop-over“ á leið milli Hringbrautar og Fossvogs.
Góða helgi!
Páll Matthíasson