Eva Bryndís Ágústsdóttir, ArkarinnEva, hefur fært Barnaspítala Hringsins áheitin sem hún safnaði á göngu sinni hringveginn sem lauk 28. júlí 2019. Gangan var um 1.500 kílómetrar og tók 43 daga.
Í tengslum við hringgönguna um Ísland safnaði Eva Bryndís fé fyrir Barnaspítalann og hélt söfnunni áfram með því að hlaupa 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu. Á 17 ára afmælisdegi sínum, 29. ágúst, afhenti Eva Bryndís söfnunarféð, 2,3 milljónir króna, og sagðist vona að peningagjöfin kæmi sér vel fyrir spítalann. Féð fer í sjóði Barnaspítalans sem eru ætlaðir til að fjármagna tæki og annan búnað fyrir spítalann og starfsemi hans.
Mynd: Jóhanna Guðbjörnsdóttir tók við framlagi Evu Bryndísar fyrir hönd Barnaspítala Hringsins.