Kæra samstarfsfólk!
Nú þegar alvarleg fjárhagsstaða Landspítala er í deiglunni er rétt að árétta nokkra þætti í ljósi umræðu síðustu vikna.
Eftir mjög erfiða aðlögun að eftirhrunsfjárframlögum, þar sem spítalinn dró saman rekstrarkostnað sinn um rúmlega 20% á ársgrundvelli, fóru fjárframlög að aukast frá árinu 2014. Sú góða þróun hefur haldið áfram og segja má að fjárveitingar liggi nú nærri þeim upphæðum (á föstu verðlagi) sem runnu til spítalans árið 2008. Frá þeim tíma hefur þjónustan hins vegar aukist og þeim fjölgað sem hana þurfa, sér í lagi þeim sem þurfa á flókinni og dýrri þjónustu að halda. Við erum því ekki komin á sama stað og 2008 - en reksturinn var þrátt fyrir þetta í jafnvægi árið 2016. Síðan þá hefur hallað undan fæti, einkum vegna kjarasamninga við stórar fagstéttir og alvarlegs mönnunarvanda en fleira kemur auðvitað til. Halli síðasta árs nam 1,4 milljarði og bætist við halla yfirstandi árs og var þetta ljóst strax þegar fyrsta ársfjórðungsuppgjör spítalans lá fyrir. Við hófum þegar að vinna að aðgerðum til að mæta þessari stöðu. Þar sem ljóst var að umfangið krafðist aðgerða sem kallaði á að fagráðuneyti okkar tæki afstöðu til þá upplýsti ég heilbrigðisráðuneytið formlega þar um, í samræmi við lög um opinber fjármál. Við höfum átt í ágætu samráði við ráðuneytið um þessa alvarlegu stöðu. Aðgerðir sem við höfum ekki þegar hrundið í framkvæmd eru í útfærslu og ljóst að þær verða umfangsmiklar.
Það er engum sérstök ánægja að glíma við þetta verkefni en mikilvægt að við gerum það sjálf enda engir betur til þess fallnir eða hafa af slíkum aðgerðum jafn umfangsmikla reynslu og einmitt við. Það er samhliða þessu verkefni mikilvægt að gleyma ekki að þjónusta Landspítala er ekki bara kostnaður heldur fyrst og síðast mikilvæg grunnþjónusta sem landsmenn geta ekki verið án. Það var því sérstaklega ánægjulegt að fá niðurstöður þjónustukönnunar spítalans nú í vikunni. Í úrtaki könnunarinnar, sem gerð er árlega, voru nú útskrifaðir sjúklingar sem til okkar leituðu fyrr á þessu ári. Tilgangurinn er að kanna viðhorf sjúklinga til þjónustunnar og nota niðurstöðurnar til umbóta í þjónustu við þá. Til samanburðar horfum við til niðurstöðu Care Quality Commision í Bretlandi. Það kemur í ljós að á nær öllum sviðum þjónustunnar er ánægja sjúklinga okkar vaxandi og nánast alltaf er samanburðurinn okkar þjónustu í hag eða ánægjan sambærileg. Hér gildir einu hvort spurt er um gæði samskipta við starfsfólk, mat, hreinlæti eða annað sem sjúklingar telja mikilvægt. Niðurstöður könnunarinnar munu fá nánari umfjöllun á hverju sviði spítalans fyrir sig en ég vil bæði þakka og hrósa ykkur fyrir þennan frábæra árangur.
Nú er að skila sér markviss þróunarvinna síðustu ára til að bæta þann mikilvæga starfsumhverfisþátt sem góður matur og matsalir eru. Það standa yfir miklar breytingar á matsölum spítalans, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði. Við horfum þar bæði til framboðs og umhverfis í öllum 9 matsölum okkar. Nýlega var opnað kaffihús fyrir sjúklinga og starfsmenn við Hringbraut og fljótlega verður opnað sambærilegt í Fossvogi. Framkvæmdir við minni matsali hefjast svo síðla haust. Þetta er mjög þarft og skemmtilegt verkefni sem ég vona að þið öll getið notið í annríki dagsins.
Á morgun verður síðsumarferð Starfsmannafélags Landspítala í Landmannalaugar. Við óskum ferðalöngunum góðrar ferðar og öllum góðrar helgar!
Páll Matthíasson