Kæra samstarfsfólk!
Á hverjum degi er unnið öflugt öryggis- og umbótastarf hér á Landspítala. Verkefnin eru fjölmörg en hafa það öll að markmiði að bæta öryggi sjúklinganna okkar og sjá til þess að atvik endurtaki sig ekki. Ein tegund atvika sem getur haft alvarlegar afleiðingar er byltur. Ýmsar ástæður liggja að baki bylta svo sem ástand sjúklings, lyf sem sjúklingur þarf á að halda og umhverfi sem ekki styður þarfir fólks í viðkvæmri stöðu. Nýlega var lokið við byltuaðgerðaáætlun Landspítala sem þverfaglegur hópur þróaði, unnið er að innleiðingu hennar og hefur sérstakur verkefnastjóri byltuvarna tekið til starfa. Þann 17. september er alþjóðlegur dagur sem helgaður er öryggi sjúklinga og hefur Rannsóknarstofa Háskóla Íslands og Landspítala í öldrunarfræðum af því tilefni boðað til málþings um byltuvarnir í Hringsal. Áhuginn á viðfangsefninu er greinilega mikill því nú þegar er fullt á þingið en unnt verður að fylgjast með á fb-síðu Landspítala og þingið verður þannig öllum opið.
Í vikunni hlaut fíknigeðdeild Landspítala sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi námsumhverfi fyrir hjúkrunarfræði- og sjúkraliðanema. Fíknigeðdeildin tekur við fólki með alvarlegan fíknivanda og alvarlegan geðsjúkdóm, svokallaðan tvígreindan vanda. Deildin sinnir afar viðkvæmum hópi en er sérstaklega þekkt fyrir öfluga teymisvinnu, sem er form þjónustu sem vænta má að eflist enn frekar í framtíðinni. Til grundvallar vali á þeirri deild sem þennan heiður hlýtur liggur mat nemanna sjálfra, sem gerir auðvitað viðurkenninguna enn mikilvægari. Til hamingju starfsfólk fíknigeðdeildar!
Undanfarin vika hefur verið verulega krefjandi á spítalanum. Óvenju mikill fjöldi sjúklinga hefur leitað á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi og reyndar þannig að vafasamt „aðsóknarmet“ var slegið. Ekki var um það að ræða að þessir sjúklingar hafi ekki átt erindi til okkar því sömuleiðis hafa aldrei jafn margir beðið innlagnar á spítalann og einmitt í dag. Þetta eru ekki eftirsóknarverð met að slá og staðan á spítalanum getur orðið býsna alvarleg við þessar aðstæður. Við höfum ítrekað skýrt ástæður þessarar stöðu fyrir öllum sem heyra vilja (og hinum líka) og verkefnið er alls samfélagsins. Engu að síður eru það einmitt starfsmenn Landspítala sem nú þurfa að leysa úr þessari stöðu fyrir sjúklingana. Ég vil sérstaklega hrósa okkar fólki sem nú stendur vaktina, þið eruð ótrúleg.
Góða helgi!
Páll Matthíasson