Hjartaheill veitti Gjafa- og styrktarsjóði Jónínu S. Gísladóttur viðurkenningu þegar nýtt hjartaþræðingartæki var tekið í notkun á Landspítala 13. september 2019. Viðurkenning var veitt fyrir ómetanlegan stuðning í þágu hjartarannsókna á Íslandi.
Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur var stofnaður í júlí árið 2000. Jónína ákvað þá að leggja fram 200 milljónir króna sem stofnfé í gjafa- og styrktarsjóð sem hefði að meginhlutverki að efla hjartalækningar á Landspítala. Síðan þá hefur sjóðurinn verið helsta stoðin í fjármögnun á kaupum til hjartalækninga á spítalanum, ekki síst til hjartaþræðinga. Jónína var eiginkona Pálma Jónssonar í Hagkaupi og allt frá stofnun sjóðsins hafa synir þeirra, Jón og Sigurður Gísli, verið í sjóðsstjórninni og látið sig málefnið miklu skipta. Jónína lést árið 2008.
Hjartaþræðingar hafa síðan árið 2008 verið á tveimur stofum á Landdspítala, sú þriðja er aðallega notuð fyrir raflífeðlisfræðilegar rannsóknir og meðferðir, ígræðslur gangráða og fleira. Tækið sem nú var verið tekið í notkun leysir af hólmi tæki sem sett var upp árið 2008. Nýr tækjabúnaður á hjartaþræðingastofum hefur það í för með sér að gæði rannsókna aukast vegna betri mynda og annarra tækninýjunga auk þess sem samhæfing alls búnaðar gerir vinnu mun léttari en áður var.
Nýja hjartaþræðingartækið heitir Alphenix og er framleitt af Canon sem er eitt af leiðandi fyrirtækjum í heiminum í framleiðslu myndgreiningarbúnaðar. Tæki frá sama framleiðanda er í næstu stofu við hliðina og hefur reynst vel frá því það var sett upp árið 2016.
Til að mæla þrýsting í æðum var keypt kerfi sem heitir QMAPP og er framleitt af Fysicon sem er undir hatti Canon. Kerfið, eins og hjartaþræðingatækið, leysir af hólmi kerfi sem sett var upp árið 2008. Innanæðaómtæki á stofunni var einnig endurnýjað.
Kostnaður við endurnýjun tækjabúnaðar hjartaþræðingastofunnar nemur um 87 milljónum króna (án vsk). Gjafa- og styrktarsjóði Jónínu S. Gísladóttur má öðrum fremur þakka að endurnýjunin varð að veruleika. Framlög sjóðsins skiptu þar sköpum því sjóðurinn leggur til 45 milljónir króna í verkefnið.
Í stjórn Gjafa- og styrktarsjóðs Jónínu S. Gísladóttur eru auk Jóns Pálmasonar og Sigurðar Gísla Pálmasonar þeir Guðmundur Þorgeirsson hjartalæknir, Sigfús Ingimundarson endurskoðandi og Páll Matthíasson forstjóri.
Ljósmynd: Fullttrúar Hjartaheilla, Sveinn Guðmundsson og Ásgeir Þór Árnason, afhentu fulltrúa Gjafa- og styrktarsjóðs, Guðmundi Þorgeirssyni hjartalækni, viðurkenningarskjal. Sjóðnum er þakkaður ómetanlegur stuðningur í þágu hjartarannsókna á Íslandi.,
Skylt efni:
13. september 2019
Nýtt hjartaþræðingartæki tekið í notkun
13. maí 2016
Nýtt hjartaþræðingartæki á Landspítala
21. mars 2014
Nýtt hjartaþræðingartæki tekið í notkun á Landspítala
6. febrúar 2003
Rúmar 50 milljónir til hjartalækninga 2003
28. september 2001
Hjartaþræðingartækið í notkun
27. júní 2001
Tæpar 80 milljónir til hjartalækninga
6. júlí 2000
25 milljónir árlega til hjartalækninga - nýtt hjartaþræðingartæki keypt