Vel á annað hundrað gestir þáðu boð um að kynna sér mikilvægi hermiþjálfunar fyrir öryggi sjúklinga í opnu húsi í Örk, nýju hermisetri Landspítala, dagana 16. til 19. september 2019.
Opna húsið var framlag Landspítala til alþjóðlegrar hermiviku í heilbrigðisþjónustu. Tilgangur vikunnar var vekja athygli á hermiþjálfun til að auka öryggi, skilvirkni og árangur í heilbrigðisþjónustu.
Örk, hermisetur Landspítala, er í Skaftahlíð 24. Þar eru góðar aðstæður til hermiþjálfunar heilbrigðisstarfsfólks sem miðar að auknu öryggi, skilvirkni og árangri í heilbrigðisþjónustu. Notaðir eru sýndarsjúklingar og líkt eftir aðstæðum á vettvangi til að æfa samvinnu, viðbrögð og tækni til að vekja þátttakendur til umhugsunar um atriði í starfsumhverfinu sem skipta máli fyrir öryggi sjúklinga og starfsfólks. Heilbrigðisþjónusta á að vera hættulaus. Samt verða atvik á heilbrigðisstofnunum um allan heim á hverjum degi sem geta haft óheppilegar afleiðingar fyrir þá sem eiga hlut að máli. Mörg atvik er hægt að fyrirbyggja með meiri öryggisvitund stjórnenda, starfsfólks og sjúklinga.
Gestir komu víða að í opna húsið. Auk landlæknis og starfsfólks Landspítala komu iðnaðarmenn sem hafa unnið að uppbyggingu hermisetursins, björgunarsveitarfólk, fjölmiðlafólk og aðrir áhugasamir um það sem fer fram í hermisetrinu.