Kæra samstarfsfólk!
Í þessum pistli mun ég segja ykkur frá skipuritsbreytingum sem taka eiga gildi 1. október næstkomandi og sem heilbrigðisráðherra hefur staðfest (sjá staðfestingu ráðherra hér neðst og einnig bréf mitt til ráðherra frá 12. september síðastliðnum). Breytingarnar eru unnar í samráði við framkvæmdastjórn Landspítala og fjölmarga innan spítalans. Álits hjúkrunarráðs og læknaráðs spítalans var leitað.
Langur aðdragandi – mikill undirbúningur
Síðasta stóra breyting á skipuriti Landspítala var árið 2009. Þær breytingar sem þá voru gerðar skiptu sköpum í þeim öldusjó sem var í kjölfar fjármálahrunsins en þáverandi skipurit hentar ekki lengur verkefnum spítalans. McKinsey-ráðgjafarfyrirtækið gerði úttekt á skipulagi Landspítala árið 2013. Þær breytingar sem þá var lagt til að gera voru ekki tímabærar þá en sú greiningarvinna hjálpaði töluvert í núverandi breytingaferli. Reynslan af breytingum á sviðum sem ráðist var í árið 2014 og síðar hefur einnig hjálpað sem og endurskoðun á stoðþjónustu spítalans síðasta árið.
Formlegur undirbúningur að breytingum þessum hófst síðan síðasta vetur og hefur mikil vinna verið lögð í verkefnið, m.a. með fjölmennum fundi stjórnenda sem og minni fundum með einstökum stjórnendum og lykilstarfsmönnum. Þá var ráðherra og ráðuneyti heilbrigðismála kynnt vinnan á ýmsum stigum og drög að því skipuriti sem nú liggur endanlega fyrir. Nýtt skipurit Landspítala sést vel á tveimur myndum sem fylgja hér fyrir neðan. Önnur er hefbundin skipuritsmynd. Þeirri síðari er ætlað að leggja áherslu á þær víddir sem ráða áherslum í starfsemi spítalans.
Meginmarkmið breytinganna er að sníða skipulag starfseminnar og stjórnunarfyrirkomulag að aðalverkefnum spítalans og síbreytilegum þörfum samfélagsins um leið og hagrætt er í stjórnunarþætti Landspítala. Á sama tíma er leitast við að ná betri heildarsýn á núverandi flæði og þjónustu við sjúklinga með því að draga úr sílóum og samhæfa starfsemina þvert á núverandi svið. Það er mat okkar að nýtt skipurit styðji við undirbúning að starfsemi spítalans í nýju húsnæði við Hringbraut.
Þar sem um nokkuð umfangsmikla breytingu á skipuriti spítalans er að ræða þá fylgir hér einnig nánari umfjöllun um einstaka þætti breytinganna.
Yfirlit yfir skipuritsbreytingar á Landspítala 2019
Tilgangur skipuritsbreytinga
1. Að fækka framkvæmdastjórum og gera framkvæmdastjórn stefnumiðaðri, með meiri yfirsýn og fókus á þróun heilbrigðisþjónustu, heilbrigðisáætlun, samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir og aðra þætti velferðarþjónustu í landinu.
2. Að draga úr kostnaði við yfirstjórn spítalans.
3. Að draga úr sílómyndun og bæta þannig flæði og skilvirkni í klínískri þjónustu.
4. Að minnka stjórnunarspönn þar sem hún er of mikil.
5. Að búa til, þar sem við á, lag forstöðuaðila sem hafa klínískt, samhæfingar- og leiðtogahlutverk.
6. Að efla þjónustuhlutverk stoðþjónustu.
7. Að efla og skýra aðkomu spítalans að Hringbrautarverkefninu.
8. Að undirbúa spítalann undir það skipulag sem nýr meðferðarkjarni, rannsóknarkjarni og göngudeildarbygging krefst.
Mikilvægt er að undirstrika að þær breytingar sem ráðist er í á árinu 2019 snúa fyrst og fremst að skipulagi yfirstjórnar spítalans og má líta á það sem fyrri bylgju breytinga sem nú eiga sér stað á Landspítala. Jafnframt verður þeirri starfsemi (kjörnum / miðstöðvum / klösum) raðað nær hver annarri í skipulagsheildir (svið) sem stefnt er að því að vinni nánar saman á næstu árum, með hliðsjón af þörfum sjúklinga og skipulagi í nýjum meðferðar- og rannsóknarkjarna.
Hverjar verða skipuritsbreytingarnar?
Megin breyting skipuritsins felst í því að starfsemi sjö klínískra sviða og rekstrarsviðs verður skipt milli þriggja sviða; meðferðarsviðs, aðgerðasviðs og þjónustusviðs. Stöður 9 framkvæmdastjóra voru lagðar niður og í stað þeirra auglýstar stöður framkvæmdastjóra þessara þriggja sviða. Ráðning í þær stöður liggur fyrir um mánaðarmótin.
Hlutverk þessara þriggja framkvæmdastjóra, sem sitja munu í framkvæmdastjórn spítalans, verður að samhæfa verkefni þeirrar starfsemi sem undir þá heyra, bæta flæði á milli eininga og sviða, vinna að framgangi göngudeilda og dagdeilda og taka þátt í því að efla framþróun og rekstur þjónustu, kennslu og vísindi á Landspítala.
Meðferðarsvið:
Á meðferðarsviði er gert ráð fyrir fjórum kjörnum / miðstöðvum með almennari áherslum sem leiddar verða af forstöðumönnum; öldrun, bráðaþjónusta, lyflækningar og endurhæfing og loks geðþjónusta.
Aðgerðasvið:
Á aðgerðasviði verða fimm kjarnar eða þjónustumiðstöðvar með sérhæfðari áherslum; krabbameinsþjónusta, hjarta- og æðaþjónusta, skurðlækningar, skurðstofur og gjörgæsla auk kvennadeilda, barnaspítala og BUGL (barna- og unglingageðdeilda). Sérstök nýjung er annars vegar krabbameinsþjónusta, hins vegar hjarta- og æðaþjónusta. Þá klasa á eftir að þróa nánar á næstu mánuðum en þarna er verið að skapa kjarnaþjónustu við sjúklinga með tvö algengustu dánarmein Íslendinga; illkynja sjúkdóma annars vegar, hjarta- og æðasjúkdóma hins vegar. Tilgangurinn er að efla þá þjónustu við sjúklinga en einnig að skapa umgjörð fyrir menntun, vísindi og nýsköpun á þessum mikilvægu sviðum.
Þjónustusvið:
Á þjónustusviði er gert ráð fyrir a.m.k. þremur kjörnum; rannsóknarstofur, blóðbanki og myndgreining í einum klasa. Aðföng (birgðir, flutningar, eldhús, þvottahús, öryggisgæsla), fasteignir og umhverfi í öðrum klasa. Þá er gert ráð fyrir klasa lyfjaþjónustu, ráðgjafarþjónustu, fjarheilbrigðisþjónustu og heilbrigðis- og upplýsingatækni.
Þarna er verið að skapa svið utan um það sem kalla mætti þjónustu við framlínuklíník þar sem almennt er ekki um að ræða grunnábyrgð á sjúklingum frá innlögn til útskriftar. Hins vegar er verið að veita rannsóknarþjónustu en einnig mikilvæga stoðþjónustu, m.a. varðandi lyf, upplýsingatækni, fasteignir og aðföng.
Ástæða þess að sérstaklega er getið ráðgjafarþjónustu í skipuriti er sú að mikilvægur hluti af þjónustu öflugs háskólasjúkrahúss er getan til samstarfs og þess að veita skjótt sérhæfða ráðgjöf og þjónustu. Þetta þarf að þróa nánar á næstu mánuðum og árum en bæði er þarna um að ræða að skapa skýrt verklag fyrir ráðgjöf sérfræðinga af ýmsu tagi en einnig í einhverjum mæli að skapa umgjörð fyrir fagfólk sem að miklu eða öllu leyti sinnir ráðgjöf, frekar en að bera heildarábyrgð á sjúklingum.
Að hluta tengist ráðgjafarþjónusta einnig fjarheilbrigðisþjónustu. Fjarheilbrigðisþjónustu sér einnig stað í skipuritinu enda Landspítali spítali allra landsmanna og ljóst að bæði ný tækni og ný viðhorf samstarfs og verkaskiptingar munu leiða til meiri áherslu á fjarheilbrigðisþjónustu í samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir á næstu árum.
Annað:
Stefnt er að því að sameina sviðsskrifstofur, sem eru 10 talsins nú, í tvær eða þrjár skrifstofur þar sem meiri samlegð næst með því sem og meiri samhæfing verkferla.
Framkvæmdastjórar fjármála og mannauðs verða áfram til staðar og sitja í framkvæmdastjórn en starfsemi sviðanna flyst á skrifstofu Landspítala.
Framkvæmdastjórar hjúkrunar og lækninga munu áfram sinna sínum verkefnum og eiga sæti í framkvæmdastjórn spítalans en starfsemin flyst á skrifstofu Landspítala.
Staða framkvæmdastjóra þróunar er lögð niður. Stýring Hringbrautarverkefnis (Landspítalaþátta) verður sér verkefni með náin tengsl við forstjóra en er ekki hluti af framkvæmdastjórn.
Stefnumörkun verður hluti af verkefnum allrar framkvæmdastjórnar, í samvinnu við ráðgjafarnefnd spítalans, heilbrigðisráðuneyti og aðra haghafa.
Almennt:
Sú nálgun starfseminnar með kjörnum / þjónustuklösum sem hér er kynnt er í samræmi við þá þróun sem víða ryður sér til rúms og hæfir betur sjúklingum nútímans sem gjarnan þurfa þverfaglega nálgun fjölbreyttra sérgreina og heilbrigðisstétta. Hér er um að ræða seinni bylgju skipulagsbreytinga á Landspítala sem gert er ráð fyrir að nánar verði útfærð með nýrri framkvæmdastjórn. Með þessu móti mun spítalinn annars vegar hafa fámennari framkvæmdastjórn sem sinnir ásamt forstjóra bæði stefnumörkun og samhæfingu verkefna, bæði innan spítalans og gagnvart öðrum heilbrigðisstofnunum. Hins vegar er þjónustu spítalans skipt upp í kjarna eða þjónustueiningar. Kjörnum á meðferðar- og aðgerðasviði sem sérstaklega eiga að vinna saman er raðað saman á svið en samvinna á auðvitað að vera í fyrirrúmi, hvort sem er innan þjónustukjarna og sviða, á milli sviða eða við aðrar stofnanir.
Forstöðumenn verða ráðnir yfir kjarna þar sem við á. Það eru í flestum tilfellum klínískir stjórnendur sem eiga að samhæfa verkefni innan viðkomandi kjarna. Með þessu móti næst klínískt samhæfingar- og leiðtogahlutverk nærri framlínu og ég bind miklar vonir við þessi störf. Nánari útfærsla bíður nýrrar framkvæmdastjórnar næstu mánuði í samvinnu við framlínustjórnendur.
Tenging vísinda og menntunar er sérstakt áhersluatriði og „hringskipuritið“ á að endurspegla það hvernig þessi kjarnahlutverk spítalans eiga að vera allt um lykjandi í þjónustunni. Samstarf forstöðumanna við vísinda- og menntadeild þarf að tryggja og byggja upp.
Göngu- og dagdeildir eru sérstakt áherslumál alls spítalans. Ástæða þess að sú starfsemi er ekki sett upp sem sérstakt verkefni í skipuriti (líkt og ráðgjafarþjónusta og fjarheilbrigðisþjónusta) er sú að þjónusta spítalans mun á næstu árum í æ meiri mæli færast af legudeildum yfir á göngu- og dagdeildir og það er stór hluti af verkefnum langflestra klínískra eininga að vinna þessari þróun framgang.
Tími breytinga
Næstu mánuðir munu reyna á, eins og breytingar gera alltaf. Nýir framkvæmdastjórar koma til starfa 1. október. Það tekur samt lengri tíma að endurskipuleggja þjónustu spítalans, skipta upp viðföngum og sameina skrifstofur. Fráfarandi framkvæmdastjórar eru í vinnu út október hið minnsta og munu áfram í mörgum tilfellum stýra sínum fyrri skipulagseiningum á breytingatímanum. Ætlunin er að skilgreina hlutverk forstöðumanna í október og auglýsa í kjölfarið stöður þeirra en allt tekur þetta tíma. Bið ég starfsfólk að sýna þessari seinni bylgju breytinga þolinmæði og skilning en við munum vinna eins hratt og unnt er.
Góða helgi!
Páll Matthíasson
Skipurit Landspítala frá 1. október 2019
Skipurit Landspítala frá 1. október 2019 - hringmynd
Breytingar á skipuriti Landspítala - bréf til heilbrigðisráðuneytisins 12. september 2019
Staðfesting á skipuriti Landspítala - bréf heilbrigðisráðuneytisins 23. september 2019