Kæra samstarfsfólk!
Eins og ykkur er vel kunnugt hefur nýtt skipurit tekið gildi á Landspítala. Samhliða því tóku til starfa þrír framkvæmdastjórar sem fara fyrir þremur nýjum sviðum; meðferðarsviði, aðgerðasviði og þjónustusviði. Hinir nýju framkvæmdastjórar eru öllum hnútum kunnugir hér á spítalanum enda störfuðu þau öll sem framkvæmdastjórar áður hér á spítalanum. Ný framkvæmdastjórn tók til starfa í síðustu viku. Framundan eru spennandi tímar hjá okkur þegar næsta bylgja breytinga fer af stað enda gerir hið nýja skipurit ráð fyrir umtalsverðum skipulagsbreytingum á hinum nýju sviðum. Framundan er mótun nýrra kjarna um meginstarfsemi spítalans og fljótlega verður auglýst eftir forstöðumönnum þessara kjarna.
Í síðustu viku fór fram Nýsköpunarmót en það er vettvangur þar sem opinberir aðilar og fulltrúar fyrirtækja hittast og ráða ráðum sínum. Það var spennandi og skemmtilegt að setja fram þær áskoranir sem við glímum við og fá fulltrúa sprota- og nýsköpunarfyrirtækja til að glíma við þær með okkur. Ég er þess fullviss að þetta leiðir í einhverjum tilvikum til farsæls samstarfs. Landspítali er stærsta stofnun landsins og auðvitað sjálfsagt og eðlilegt að við tökum þátt í uppbyggingu og þróun nýsköpunar í samfélaginu.
Eins og ég hef oft rætt á þessum vettvangi þá er öflugt umbótastarf einn hornsteinn þróunar á starfi okkar á Landspítala. Við horfum auðvitað sérstaklega til öryggis sjúklinga þegar við leitum leiða til að auka gæði og þjónustu og gott dæmi um þetta er vinnustofa sem verkefnastofa spítalans stóð nýlega fyrir og sneri að umbótum lyfjaferla hjá lungnadeild og apóteki. Lyfjaöryggi er afar mikilvægt en flækjustig lyfjaferla er áskorun. Um var að ræða svokallaða „Rapid Process Improvement Workshop“ sem leidd var af sérfræðingi frá Virginia Mason Institute í Bandaríkjunum. Markmiðið var að skoða lyfjaferla á lungnadeildinni og apótekinu, læra aðferðir RPIW og nota lærdóminn til að horfa til annarra deilda spítalans.
Að endingu langar mig til að nefna, að um síðustu mánaðamót fékk allt starfsfólk Landspítala þátttökuboð í tölvupósti fyrir stjórnendamat og stefnukönnun. Það er mjög mikilvægt fyrir stjórnendur að fá endurgjöf frá samstarfsfólki til þess að þróast og ná árangri í starfi. Það er okkur öllum til heilla. Frestur til að taka þátt í matinu og umræddri könnun rennur út á miðnætti næstkomandi sunnudag, 13. október. Því vil ég hvetja starfsfólk eindregið til að gefa sér tíma og svara könnuninni. Það tekur einungis um 5 mínútur.
Góða helgi!
Páll Matthíasson