Kæra samstarfsfólk!
Eins og öllum er kunnugt stöndum við frammi fyrir því erfiða verkefni að hagræða í rekstri spítalans. Það er ekki létt verk enda finnst okkur flestum hverri krónu vel varið í þjónustu við sjúklinga á Landspítala og ekki einfalt að ná jafnvægi milli þeirra krafna sem gerðar eru til þjónustunnar og þeirra fjárveitinga sem ríkisvaldið ætlar til hennar.
Þrátt fyrir erfið ár í kjölfar hrunsins náðum við jafnvægi í rekstrinum, náðum að reka spítalann innan fjárlaga fram til ársins 2016 og vorum ekki langt frá því marki árið 2017. Síðustu misseri hafa reynst okkur þung í skauti og því höfum við hrundið af stað umfangsmiklum aðhaldsaðgerðum sem munu skila nærri eins milljarðs sparnaði á þessu ári og tveimur og hálfum milljarði á því næsta. Þetta eru ekki sársaukalausar aðgerðir enda munu þær eðli máls samkvæmt koma við kjör þeirra sem hér á spítalanum starfa. Framkvæmdastjórum hefur verið fækkað og laun þeirra lækkuð um 5%. Þá höfum við þegar sagt upp ýmsum viðbótarkjörum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra og framundan er endurskoðun á vinnuskipulagi, sérstaklega hjá læknum. Fyrir utan þetta er aðhaldskrafa á stoðsviðin okkar og ýmsa aðra þætti í rekstrinum sem mörg ykkar hafa þegar fundið fyrir.
Stjórnskipulag spítalans hefur tekið miklum breytingum og ný framkvæmdastjórn hafið störf. Það var fyrri bylgja mikilla breytinga hjá okkur sem miðar að því að gera stjórnun spítalans skilvirkari og í dag má segja að síðari bylgja breytinganna hafi hafist þegar auglýstar voru stöður forstöðumanna 11 kjarna spítalans. Hér er um að ræða lykilstjórnendur sem ætlað er að samhæfa flókin verkefni í framlínu kjarnastarfsemi spítalans; þjónustu við sjúklinga, vísindi og menntun. Stefnt er að því að ráðið verði í störfin frá áramótum.
Í næstu viku verður á Hotel Natúra metnaðarfull fræðsludagskrá fyrir starfsfólk um líffæragjafir. Dagskráin er í samstarfi Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og Embættis landlæknis. Þar verða flutt erindi innlendra sérfræðinga en góðir gestir frá Líffæraígræðslumiðstöð Sahlgrenska sjúkrahússins í Gautaborg munu einnig flytja erindi. Við höfum um langa hríð átt í öflugu samstarfi við Sahlgrenska sjúkrahúsið um þennan flókna og viðkvæma málaflokk og náð góðum árangri. Ég hvet alla áhugasama til að mæta á þennan atburð, sem fram fer á miðvikudaginn í næstu viku. Sjá myndskeiðið.
Góða helgi!
Páll Matthíasson