Tímamót urðu í lyfjafræðinámi á Íslandi 25. október 2019 þegar fyrstu klínísku lyfjafræðingarnir brautskráðust frá lyfjafræðideild Háskóla Íslands með meistaragráðu í klínískri lyfjafræði. Brautskráningarkandídatarnir María Jóhannsdóttir og Helga Kristinsdóttir urðu fyrstar til að ljúka þessu nýja sérnámi en um er að ræða launað 90 eininga þriggja ára starfsnám sem fer að mestu fram á Landspítala.
Nám í klínískri lyfjafræði er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Landspítala og hafa lyfjafræðideild og Landspítali haft samstarf um kennsluviðmið námsleiðarinnar við University College London og fengið þaðan leiðbeiningar um uppbyggingu og skipulag námsins og þjálfun leiðbeinenda á Íslandi. Með þessu móti eru gæði námsins tryggð frá upphafi og er það viðurkennt af Royal Pharmaceutical Society. Að auki gefst nemendum kostur á að sækja tímabundna námsdvöl við háskólasjúkrahús í Bretlandi og breskir nemar koma til Íslands. Royal Pharmaceutical Society og Lyfjafræðingafélag Íslands hafa stutt dyggilega við undirbúning og stofnun námsleiðarinnar.
Klínískir lyfjafræðingar eru vaxandi starfsstétt á Íslandi og hafa sannað mikilvægi sitt á Landspítala. Markmið klínískrar lyfjafræði er að stuðla að og efla skilvirka og skynsamlega notkun lyfja í heilbrigðiskerfinu. Líkt og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra nefndi í sínu ávarpi við brautskráninguna þá eru aukaverkanir lyfja oft orsök sjúkrahúsinnlagnar, valda heilsutjóni og miklum kostnaði fyrir samfélagið. Rannsóknir hafa sýnt að í langflestum tilvikum hefði mátt koma í veg fyrir aukaverkun með vandaðri lyfjafræðilegri yfirferð. Því er talið brýnt að leita leiða til að færa þekkingu og færni klínískra lyfjafræðinga út í samfélagið, til dæmis á heilsugæslur, hjúkrunar- og öldrunarheimili og ekki síst auka þátt apótekanna í því að veita aukna þjónustu til sjúklinga. Á þessum stöðum sé mögulega að vinna markvisst að því að fyrirbyggja lyfjatengdan vanda hjá sjúklingum.