Gleym mér ei - styrktarfélag hefur fært meðgöngu- og sængurlegudeild, fæðingarvakt og Vökudeild Landspítala að gjöf 50 minningarkassa að verðmæti 1,2 milljónir. Þetta mun vera í fimmta sinn sem félagið færir Landspítala slíka gjöf.
Að missa barnið sitt á meðgöngu, í eða eftir fæðingu, er eitt það erfiðasta sem foreldrar þurfa að ganga í gegnum á lífsleiðinni. Tilhlökkunin og væntingarnar um það líf sem er í vændum eru brotnar. Sá tími sem fjölskyldan fær með barninu eftir fæðingu er dýrmætur og mikilvægt að skapa eins margar minningar og hægt er. Þessar minningar er hægt að varðveita um ókomin ár til minningar um það litla líf sem aldrei varð. Í hverjum kassa er leir til að taka handa- og fótafar, kertastjaki með Gleym mér ei blóminu, tveir bangsar, minnisbók, minningarbók, hjartalaga skraut með fallegum orðum, barnabókin Lítið ljós, armbönd frá Aurum og bréf til foreldra.