Fimm ár er liðin frá stofnfundi Spítalans okkar og af því tilefni efna samtökin til málþings þar sem litið verður yfir farinn veg en fyrst og fremst horft til framtíðar og þeirra tækifæra sem nýtt þjóðarsjúkrahús hefur í för með sér fyrir starfsemi Landspítala og heilbrigðisþjónustuna í landinu. Yfirskrift málþingsins er Uppbygging Landspítala: Menntun, vísindi og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu. Það verður á Reykjavík Hótel Natura þriðjudaginn 12. nóvember 2019, kl. 15:00-17:00.
Á málþinginu flytur Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ávarp, Alma D. Möller landlæknir fjallar um nýtt þjóðarsjúkrahús og framtíð heilbrigðisþjónustu og Sigríður Gunnardóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala, fjallar um menntun og vísindi til framtíðar.
Sérstakur gestur málþingsins verður Charlotta Tönsgård, framkvæmdastjóri og stofnandi heilbrigðistæknisprotans „Kind App“ sem er nútíma samskiptaleið til að miðla þekkingu til notenda heilbrigðisþjónustu og milli starfsfólks. Appið nýtur aukinna vinsælda víða um heim.
Allt frá stofnun samtakanna Spítalinn okkar hafa þau fylgst gaumgæfilega með framgangi Hringbrautarverkefnisins og hvatt alla hagsmunaaðila til góðra verka. Mikill gangur er nú í gatnagerð og jarðvegsvinnu á Hringbrautarlóðinni. Innan tíðar verður opnuð ný akstursleið að Landspítala á gatnamótum gömlu Hringbrautar og Snorrabrautar. Framkvæmdasvæði meðferðarkjarnans er komið í fulla stærð og nær tilbúið til uppsteypu. Þá er unnið að jarðvinnu vegna bílakjallara fyrir sjúklinga og aðstandendur sem verður undir Sóleyjartorginu sem er miðja skipulagssvæðisins. Nú stendur yfir forval vegna uppsteypu meðferðarkjarnans sem á að hefjast af fullum krafti í apríl á næsta ári.
Í meðferðarkjarnanum, sem er í raun hjartað í starfsemi Landspítala, verður öll bráðastarfsemi spítalans eins og slysa- og bráðamóttaka, skurðstofur og gjörgæsludeild,ásamt 210 legurýmum. Þar verður einnig sérútbúin smitsjúkdómadeild. Sjúkrarúmum á legudeildum mun fjölga þegar starfsemin flytur úr Fossvogi og sameinast í nýju sjúkrahúsi við Hringbraut.
Sjúkrahótel Landspítala var tekið í notkun í maí árið 2019 og það hefur reynst mikilvægt fyrir starfsemi spítalans að hafa slíkt húsnæði svo nálægt mikilvægri starfsemi eins og á kvennadeild, vökudeild og krabbameinslækningadeild svo fátt eitt sé nefnt.