Kæra samstarfsfólk!
Eins og flestum ætti að vera ljóst var skipuriti Landspítala breytt nýlega og ný, fámennari framkvæmdastjórn hóf störf í októberbyrjun. Ég hef vísað til þessa sem fyrri bylgju umfangsmikilla breytinga hjá okkur og með tilkomu 11 nýrra forstöðumanna kjarna á Landspítala hefst sú síðari. Nú á mánudaginn rennur út umsóknarfrestur fyrir þessar stöður og ég hvet ykkur eindregið til að skoða þetta tækifæri.
Hið nýja skipurit Landspítala byggir á kjörnum sem mynda þrjú svið, meðferðar-, aðgerða- og þjónustusvið. Á meðferðarsviði hverfast fjórir kjarnar um bráðaþjónustu, geðþjónustu, lyflækningar og endurhæfingu og öldrunarþjónustu. Á aðgerðasviði eru fimm öflugir kjarnar um skurðlækningar, gjörgæslu- og svæfingar, krabbameinsþjónustu, hjarta- og æðaþjónustu og kvenna- og barnaþjónustu auk barna- og unglingageðþjónustu. Á þjónustusviði eru loks tveir lykilkjarnar um rannsóknarþjónustu annars vegar, aðföng og umhverfi hins vegar.
Stjórnendur þessara kjarna allra, forstöðumenn, eru lykilstjórnendur sem ætlað er samhæfa flókin verkefni í framlínu spítalans; þjónustu við sjúklinga, vísindi og menntun. Hér er um umfangsmikil stjórnunarstörf að ræða sem fylgir þríþætt ábyrgð sem lýtur að faglegum, fjárhagslegum og mannauðstengdum þáttum. Rétt er samt að leggja áherslu á að með þessum nýju störfum er ekki verið að draga úr ábyrgð og hlutverki framlínustjórnenda (yfirlækna og deildarstjóra). Hlutverk forstöðumanna snýr sérstaklega að samhæfingu, samstarfi og heildaryfirsýn stærri málaflokka.
Nú á mánudaginn kemur, 11. nóvember, rennur út umsóknarfrestur fyrir nýjar stöður forstöðumanna þessara 11 kjarna á Landspítala. Hér er um að ræða afar spennandi stjórnunarstöður fyrir metnaðarfulla einstaklinga sem tilbúnir eru að taka þátt í krefjandi og spennandi verkefnum en framundan er tímabil breytinga og þróunar. Hér má finna nánari upplýsingar.
Næsta vika verður að vanda annasöm á Landspítala en mig langar þó að minna á tvo afar spennandi viðburði sem þá eru áætlaðir. Annars vegar fagnar „Spítalinn okkar“ 5 ára afmæli þann 12. nóvember á Hótel Natúra með glæsilegu málþingi. Samtökin hafa frá stofnun haft að markmiði að efla skilning almennings og stjórnvalda á mikilvægi uppbyggingar Landspítala við Hringbraut og hafa sannarlega verið einn öflugasti bakhjarlinn í þeirri baráttu.
Hins vegar stendur heilbrigðisráðuneytið fyrir Heilbrigðisþingi þann 15 nóvember á Hótel Hilton Nordica. Yfirskrift þingsins er „Siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.“ Heilbrigðisþinginu er ætlað að skapa vettvang fyrir umræður um helstu gildi og siðferðilegu áherslur sem leggja ber til grundvallar í forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Þingið og viðfangsefni þess er liður í vinnu sem framundan er við gerð þingsályktunartillögu um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi næsta vor.
Að lokum verð ég að nefna frábært málþing sem haldið var í Hringsal í gær, 7. nóvember. Dagurinn var 152. afmælisdagur nóbelsverðlaunahafans Marie Curie, frumkvöðuls í geislalækningum, og var þarna um margfalt afmæli að ræða. Í ár er 100 ára afmæli geislameðferðar á Íslandi, 35 ár frá stofnun krabbameinslækninga Landspítala og 30 ár frá opnun K-byggingar fyrir geislameðferð og opnun legudeildar fyrir krabbamein. Málþingið rakti vel sögu geislameðferðar, mikilvægi einu geislameðferðardeildar landsins hér á Landspítala og hversu vel nýtt sjúkrahótel nýtist þeim hópi sem sækir þessa meðferð til okkar en það eru tæplega 800 einstaklingar alls á hverju ári. Það safnast þegar saman kemur en einn af hverjum sex Íslendingum mun fá geislameðferð einhvern tímann á lífsleiðinni, í læknandi eða líknandi tilgangi. Gríðarlegar framfarir eiga sér stað þessi árin í geislameðferð og verður spennandi að fylgjast áfram með og styðja við þróunina.
Góða helgi!
Páll Matthíasson