Kæra samstarfsfólk !
Síðastliðinn mánudag rann út umsóknarfrestur 11 forstöðumanna fyrir störf hér á Landspítala Það er ánægjulegt að segja frá því að 70 umsóknir bárust frá 67 frambærilegum einstaklingum og verður ærið verkefni að vinna úr þeim mjög svo góðu umsóknum sem bárust. Strax í næstu viku fara fram viðtöl vegna þessara starfa og gert ráð fyrir að nýir forstöðumenn hefji störf 1. janúar á næsta ári.
Vika bráðahjúkrunar er árlegur viðburður sem skipulagður er af afar metnaðarfullu fagráði bráðahjúkrunar og fer nú fram hér á Landspítala í næstu viku. Bráðahjúkrun er í sífelldri þróun og mikilvægt að þjóðarsjúkrahúsið, þar sem landsins stærsta bráðamóttaka er, taki virkan þátt í því starfi. Rannsóknir og umbótaverkefni i bráðahjúkrun er nauðsynlegur þáttur í þróun bráðamóttökunnar og dýrmætt að sjá metnaðinn og atorkuna í starfi hjúkrunar á deildinni. Ég hvet ykkur eindregið að fylgjast með dagskránni og öflugu uppbyggingarstarfi, í miðju umrótsins á spítalanum.
Talandi um bráðahjúkrun og bráðamóttöku. Í morgun varð alvarlegt umferðarslys í nágrenni Reykjavíkur og var viðbragðsstjórn Landspítala kölluð út vegna þess. Eins og undanfarið var staðan afar þung á bráðamóttökunni okkar þar sem ríflega 30 sjúklingar biðu innlagnar og aðstæður mjög erfiðar. Engu að síður leysti okkar fólk úr þessari flóknu stöðu af mikilli fagmennsku, eins og alltaf. Ég vil þakka okkar frábæra fólki um allan spítala fyrir frábæra samvinnu í þessu verkefni. Þá er rétt að minna almenning á að vegna þessa slyss má búast við töfum á þjónustu á bráðamóttöku en að vanda er forgangsraðað eftir bráðleika
Þau ánægjulegu tímamót urðu á dögunum, að sérstök móttökumiðstöð fyrir nýtt starfsfólk Landspítala var opnuð að Skaftahlíð 24 í Reykjavík. Umfangið er umtalsvert enda hefja um 1.500 manns störf árlega á þessum 6.000 manna vinnustað. Móttökumiðstöðin er samstarfsverkefni skrifstofu mannauðsmála, upplýsingatækni og þjónustusviðs. Markmiðið með móttökumiðstöðinni er að safna á einn miðlægan stað fjölbreyttri þjónustu og þjálfun fyrir nýtt starfsfólk. Móttökumiðstöðin er mikilvægur áfangi í framþróun Landspítala og til marks um aukna skilvirkni og hagkvæmni í rekstri spítalans.
Góða helgi!
Páll Matthíasson