Kæra samstarfsfólk!
Landspítali er fjölþjóðlegur vinnustaður og í því er mikill styrkur. Það er mikilvægt að um þekkingarvinnustað eins og okkar leiki vindar fjölbreyttrar menningar og þekkingar og því leggjum við okkur fram við að taka vel á móti erlendu starfsfólki. Hjúkrunarfræðingar eru sennilega sú stétt sem mest alþjóðleg eftirspurn er eftir og verður áfram. Við erum því afar heppin að til okkar koma hjúkrunarfræðingar víða að og mikilvægt að halda vel utan um þennan hóp. Nú sækja 30 erlendir hjúkrunarfræðingar röð námskeiða og fyrirlestra í þessum tilgangi og er þetta góður vettvangur fyrir kollega að hittast og læra hver af öðrum - sjá meðfylgjandi myndskeið.
Annarri umræðu fjárlaga lauk í síðustu viku og þrátt fyrir að fjárlög séu ekki endanlega samþykkt liggja línur nokkuð ljósar fyrir. Fyrir liggur að aðlögun reksturs spítalans mun verða krefjandi verkefni og eins og ykkur er öllum kunnugt um höfum við þegar hafið margar hagræðingaraðgerðir sem sér stað í starfseminni. Því miður er það svo að ekki verður hjá því komist, í rekstri þar sem ríflega 70% kostnaðar liggur á launalið, að grandskoða alla þætti launa. Sú vinna stendur nú yfir og hefur viðmiðið verið að líta fyrst til ófjármagnaðara launaþátta, eins og t.d. Hekluverkefnisins, auk launa æðstu stjórnenda. Nú stendur yfir endurskoðun á viðbótargreiðslum hjá hluta yfirlækna og sérfræðinga og koma breytingar til framkvæmda með hefðbundnum fresti.
Í síðustu viku stóðu heilbrigðisráðneytið og heilbrigðisráðherra fyrir afar vel heppnuðu heilbrigðisþingi. Aðalumfjöllunarefnið hefði varla getið verið meira viðeigandi; siðferðileg gildi og forgangsröðun. Fjölmargir af Landspítala tóku þátt í undirbúningi þingsins og þinginu sjálfu en einnig komu fræðimenn, veitendur og notendur þjónustunnar að þessari mikilvægu vinnu. Hér má nálgast upptöku frá þinginu og dagskrá þess og enda þótt útsendingin hafi vissulega verið löng hvet ég ykkur til að líta á a.m.k. valda hluti þingsins. Afurðir heilbrigðisþings verða nýttar í þeirri vinnu sem framundan er við gerð þingsályktunartillögu um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðherra hyggst leggja fyrir Alþingi næsta vor.
Góða helgi!
Páll Matthíasson